154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða bandorminn, fjáraukann. Eins og fjárlögin þá er þetta eiginlega stórfurðulegt plagg og mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti útskýrt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum frítekjumark öryrkja hækki ekki samkvæmt vísitölu. Það ætti að fara í 215.000 kr. ef það væri rétt gefið en þeir ætla að hafa það óbreytt. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur gert þetta, að hafa þetta bara óbreytt og það er ákveðin skerðing hjá þeim sem eru að reyna að vinna. Maður furðar sig á þessu vegna þess að á sama tíma er verið að tvöfalda framlög til svokallaðra einkarekinna fjölmiðla, sem eru núna einkareknir fjölmiðlar á ríkisstyrk og ekki nóg með það heldur á að hækka hjá þeim um 10,7%. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig fengu þeir þetta út og hvernig gátu þeir gert þetta? Þetta er nærri því 6% meiri hækkun heldur en eldri borgarar og öryrkjar fá, þeir fá 4,9% hækkun en hinir fá 10,7%. Ef við horfum á þetta þá er t.d. óskiljanlegt fyrirbrigði í þessu að útvarpsgjald eigi að hækka bara eðlilega en sóknargjald eigi ekki að hækka. Var dregið? Hvernig var þetta gert? Er þetta eitthvert lottó, sumir dregnir út sem eiga að fá lækkun, aðrir dregnir út sem eiga að fá hækkun? Hvernig finnið þið út svona mismunun? Hvernig er þessu stillt upp? Er þetta eitthvað sem er bara útspekúlerað, eitthvert kerfi sem þið eruð með eða hvað er það sem veldur því að þið ákveðið að mismuna svona?

(Forseti (AIJ): Forseti minnir þingmenn á að ávarpa forseta en ekki ráðherrana sem til svara eru.)