154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Hv. þingmaður virðist hafa áhyggjur af því að ég hafi ekki skoðað nægilega vel hvernig skattstofninn er og hvernig þetta fer allt fram á Norðurlöndunum. Þar sem ég sit ekki sjálfur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en hv. þingmaður fer væntanlega seinna í vikunni með formennsku þar, þá skora ég á hv. þingmann að framkvæma frumkvæðisúttekt á því innan nefndarinnar hvernig þetta er á Norðurlöndunum og í samanburði við fjármagnstekjuskatt á Íslandi. Ég hlakka til að sjá útkomuna úr þeirri athugun.

Þegar ég sagði hér áðan, sem hv. þingmaður spurði hvað ég meinti með, að þeir ríku ættu að borga sinn hlut af skattinum, þá var ég náttúrulega að tala um hlutfallslega. Það er til gömul og góð tilvitnun í einn ríkasta mann heims, Warren Buffett, sem sagði að það væri alls ekki réttlætanlegt að hann borgaði lægri skatt en ritarinn sinn sem væri launþegi. Ef skoðað er hlutfallslega hvernig sumir af þeim sem greiða sér út milljarða á milljarða ofan í fjármagnstekjur greiða minna til samfélagsins en launþegar sem hafa ekki þetta tækifæri, þá nota þeir alls konar ívilnanir til þess að borga lægri skatt, hvort sem það er til ríkis eða sveitarfélaga.