154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Í framhaldi af þeirri umræðu sem var hér áðan um t.d. skattahlut og þá sem eru með fjármagnstekjuskatt eingöngu, eða eingöngu með fjármagnstekjur, þá er skattkerfið arfavitlaust því miður, gífurleg misskipting í því. Það er svolítið skrýtið að á sama tíma skuli t.d. persónuafslátturinn ekki eingöngu vera notaður til að hjálpa þeim sem eru á lægstu launum og lífeyri almannatrygginga. Fyrir þá sem eru á háum launum skiptir persónuafslátturinn ekki neinu höfuðmáli. En það er hækkun á persónuafslætti og þær skattbreytingar sem eru núna, eins og hefur komið skýrt fram, skila sér minnst til þeirra sem mest þurfa á að halda og mest til þeirra sem minnst þurfa á því að halda. Þetta er auðvitað í anda þessarar ríkisstjórnar.

Eins og kom fram í andsvörum mínum við hæstv. fjármálaráðherra hérna áðan þá var hann að reyna að verja það. Ég skil ekki hvernig hann ætlaði að fara að því að verja það að hafa óbreytt frítekjumark, 200.000 kr. á mánuði, 2,4 milljónir á ári. Á sama tíma sagði hann að þeir væru að búa til hvata til að öryrkjar bjargi sér sjálfir. Þetta er bara öfugt, algerlega öfug sálfræði í öllu. Þetta stenst ekki. Á sama tíma og hann ætti að hækka frítekjumarkið í 250.000 kr. eða um 180.000 kr. meira yfir árið, þá er hann samt að tala um að endurskoða almannatryggingakerfið, það eigi að auðvelda öryrkjum að fara út að vinna sem geta það, en því miður er ekki verið að sýna það hérna. Hann væri þá alla vega að sýna að það væri einhver alvara í þessu ef hann hefði verið að hækka frítekjumarkið. Ef það er einhver alvara í því að þeir vilji fá öryrkja til að reyna að vinna þá verða þeir að sjá til þess að þeir verst settu geti nýtt sér þetta vegna þess að við erum með svo arfavitlaust kerfi að þeir sem eru að fá heimilisuppbót eða sérstaka viðbót geta ekki nýtt sér þetta. Það skerðist strax. Þetta eru yfirleitt þeir einstaklingar sem þurfa mest á því að halda og eru í verstu stöðunni. Ef ríkisstjórnin ætlar sér virkilega að fara í endurskoðun á almannatryggingakerfinu með þessum hætti þá segi ég bara: Guð hjálpi þeim, vegna þess að það á ekki eftir að skila sér.

Það var annað mjög athyglisvert í andsvörum mínum við hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hann tvisvar að því en fékk engin svör. Ég spurði tvisvar að því: Hvernig stendur á því að það sé hægt að tvöfalda framlög til einkarekinna fjölmiðla? Hvers vegna í ósköpunum þurfa einkareknir fjölmiðlar tvöfaldað framlag? Hvers vegna þarf alltaf að sjá til þess að ríkisfjölmiðill fái allar hækkanir? Á sama tíma kemur skýrt fram í fjárlögunum að það á að hækka einkareknu fjölmiðlana um 10,7% en lífeyri almannatrygginga, fyrir aldraða fólkið okkar og öryrkjana, um 4,9%. Það er allt svona skrýtið í þessu eins og að útvarpsgjaldið hækkar, sóknargjöldin lækka. Það er eins og það sé bara happa og glappa, eins og einhverjum hafi bara dottið í hug að gera þetta bara einhvern veginn.

Eitt sem hefur kannski líka ekki verið rætt og þyrfti að ræða ítarlega er Framkvæmdasjóður aldraðra. Enn einu sinni á að fara að misnota Framkvæmdasjóð aldraðra. Enn einu sinni hringja engar viðvörunarbjöllur um að það á að nota hann í rekstur. Samt á sama tíma er komið skýrt fram að það þarf 700 ný hjúkrunarrými fram til 2030. Það þarf að spýta í, það þarf að byggja. Það þarf að taka á biðlistunum. En erum við að gera það? Nei, ekki með því að taka þessa fjármuni, sem eru eyrnamerktir til að byggja upp hjúkrunarheimili, í rekstur. Það er eiginlega ekki heiglum hent að sjá hversu mikið hefur verið tekið út úr Framkvæmdasjóði aldraðra í reksturinn. Eftir því sem ég var að reyna að finna út áðan þá vorum við komnir á töluna 1,2 milljarða. Ég veit ekki hvort hún er rétt, ég hafði ekki alveg nógu langan tíma til þess, en ef það er rétt þá er þetta gífurleg misnotkun á sjóðnum. Það verður að stöðva þetta. En því miður, þeir ætla sér alls ekki að stöðva svona hluti. Þeir eru sannfærðir einhvern veginn um að það sé hið besta mál að gera hlutina einhvern veginn þannig að það er eins og það sé bara dregið um það á einhvern furðulegan hátt, hvað það er sem á að virka og hvað ekki.

Svo er annað í þessu með almannatryggingakerfið. Hérna inni er einn langlengsti texti um það hvað á að gera og það eru víxlverkanir lífeyrissjóða og ríkisins. Bara þessi klausa sýnir hversu arfavitlaust kerfið okkar er. Það að við skulum hafa getað búið til svona vitlaust kerfi er eiginlega heimsmet. En það er líka alveg heimsmet í heimsku og vitleysu að viðhalda þessu, að viðhalda þessum fíflagangi ár eftir ár. Það þarf að taka þetta á hverju einasta ári, að setja þetta inn til að viðhalda þessu undarlega fyrirbrigði, þessu kerfi. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að í þessari endurskoðun almannatryggingakerfisins verði ekki tekið á þessu miðað við það sem ég heyrði núna hjá hæstv. fjármálaráðherra, miðað við hvernig þeir taka á frítekjumörkum, miðað við hvernig þeir eru að reyna að skauta fram hjá því að halda áfram þessum keðjuverkandi skerðingum í kerfinu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margoft hælt sér af þessu í pontu, þar sem hann kemur hérna aftur og aftur með tíundina sína, Tekjusöguna, og segir: Þar hefur þessi hópur hækkað alveg gífurlega. Á sama tíma er aldrei tekið með inn í kerfið hvað keðjuverkandi skerðingarnar eru miklar.

Ég held að almenningur þarna úti og fleiri átti sig ekki á því að ef skerðingarnar væru ekki til staðar þá væru útgjöld ríkisins um 70 milljörðum hærri, spáið í þetta, 70.000 milljónir. Þetta eru skerðingar sem eru að hækka um 7–10 milljarða kr. á hverju einasta ári. Þegar maður tekur saman það sem er lagt inn í kerfið til almannatrygginga og síðan hitt þegar við drögum frá skerðingarnar þá er þetta kerfi þannig byggt upp að ef þú setur þúsundkall hérna inn þá má þakka fyrir að 100–150 kr. renni í vasa þeirra sem lifa á lífeyrislaunum almannatrygginga. Þarna erum við að tala um 80–85% skatt og skerðingar. Hvers vegna vill ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hafa þetta svona? Jú, vegna þess að þá geta þær haldið áfram sínum blekkingum og sagt að þeir verst settu í okkar þjóðfélagi hafi það svo ótrúlega gott, hafi hækkað svo rosalega mikið. Þær átta sig ekki á því að það er misjafnt hvernig þetta bítur og því miður, þegar þetta er skoðað ofan í kjölinn, þá bítur þetta mest þá sem síst skyldi, mest þá sem verst standa.

Það er annað sem er inni í þessum breytingum og líka í fjárlögunum sem er ekkert tekið á og er þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar. Það eru búsetuskerðingar, að við skulum enn þá leyfa okkur þær og að það skuli hvergi koma fram breytingar þannig að við hættum að borga einhverju fólki lægstu lífeyrislaun almannatrygginga en látum það ekki stoppa heldur 10% minna. Það er örugglega enginn hérna inni í þessum sal og enginn þarna úti sem telur að fólk lifi einhverju góðu lífi á lægsta ellilífeyri. En hvernig í ósköpunum dettur einhverjum í hug að það eigi einhver hópur að lifa á 10% minna? Það sem er það besta af þessu öllu, sem er heldur ekki tekið á: Þeir settu krónu á móti krónu skerðingar á þennan hóp, aftur, krónu á móti krónu. Ef hann fær einhvers staðar tekjur — króna á móti krónu. Þeir tóku þetta upp á verst setta hópinn. Þess vegna segi ég: Það er gjörsamlega vonlaust að trúa því að þessi ríkisstjórn ætli að gera eitthvað fyrir þennan hóp. Það hvarflar ekki að henni eina mínútu.

Ég held að ég hafi þetta ekki mikið lengra en ég segi fyrir mitt leyti að þessi ríkisstjórn fer vill vegar vegna þess að það kom líka fram hjá ráðherra að neysluvísitala fyrir árið 2023 hafi verið 7,4% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. En af hverju eru þá 4,9% að fara til eldri borgara og öryrkja ef það eru 7,4%? Ef við tökum launavísitöluna er nærri 12% hækkun þar á síðasta ári. Af hverju eru þá 4,9% fyrir lífeyrisþega? Af hverju er alltaf nærri helmingi minna? Af hverju t.d. eru þeir að fá nær 6% minna en einkareknir fjölmiðlar? Þar fékk ég ekkert svar, hann svaraði því ekki einu sinni.