154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að kveðja mér hljóðs í þessari umræðu um tekjubandorminn sem er hér lagður fram af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég ætla að stikla á nokkrum atriðum sem mér finnst mikilvægt að koma aðeins inn á í umræðunni. Fyrst langar mig að nefna verðlagsuppfærslu krónutöluskatta þar sem er verið að leggja til 3,5% hækkun. Þar er um að ræða aðgerð stjórnvalda sem miðar að því að vinna gegn þeirri spennu sem myndast hefur í hagkerfinu en styrkja samt líka tekjugrundvöll ríkissjóðs án þess að vera of íþyngjandi fyrir almenning. Ég vona að það að fara þessa leið skili árangri inn í hagstjórnina núna en er nú annars almennt þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að afla tekna í ríkissjóð því að það eru auðvitað tekjurnar sem við notum til þess að reka samfélagið okkar. En það er hins vegar líka alveg jafn ljóst að það er gríðarlega mikið hagsmunamál að ná niður verðbólgunni og ég vona að þetta skili tilætluðum árangri.

Mig langar aðeins að fjalla um það sem hér er lagt til og er ein af framlengingunum, þ.e. framlenging á ákvæðum til að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða, koma í veg fyrir að víxlverkanirnar éti upp það sem fólk sem fær þessar greiðslur myndi annars fá. Þetta er eitt af þessum atriðum sem er svo algjörlega sjálfsagt og nauðsynlegt að fara í á hverju ári. En því miður hefur ekki tekist að finna eða búa til kerfi sem kemur í veg fyrir þetta. Það er náttúrlega búið að gera þetta svo oft að manni finnst þetta eiginlega bara vera orðið hið sjálfsagða mál að gera, sem það auðvitað er á vissan hátt. En það er hins vegar líka svo mikilvægt að muna eftir því að ef ekki yrði farið í þessa framlengingu þá myndi það hafa verulega neikvæð áhrif á afkomu þó nokkuð stórs hóps af fólki. Til að mynda er bent á það hér í greinargerð með frumvarpinu að verði ákvæðið ekki framlengt muni frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 2,4 millj. kr. á ári í 300.000 kr. Það væri algerlega ótækt. Þannig að þetta er eitt af þessum málum sem eru svo sjálfsögð að séu hérna en í fullkomnum heimi ættu þau ekki að þurfa að vera hérna.

Ég tel að það sé mikilvægt að við í nefndinni förum vel yfir það sem snýr að gjaldskyldri losun gróðurhúsalofttegunda. Ég verð bara að játa það að ég held að það sé mikilvægt að við förum rækilega í þetta til að skilja vel hvaða áhrif breytingarnar hafa og hvaða áhrif það myndi hafa ef breytingarnar væru ekki gerðar og nefndin skoði þetta vel sem og auðvitað allt annað sem snýr að hlutum sem hafa með loftslagsmál að gera.

Mig langar að fagna því sérstaklega að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að tekjuskattur lögaðila hækki tímabundið til eins árs um 1 prósentustig og fari þar með úr 20% í 21% rekstrarárið 2024 og við álagningu á árinu 2025. Ég held að það sé jafnframt mikilvægt að við fylgjum því eftir og sjáum hvaða áhrif þetta hefur því að hér er einungis verið að lögfesta að gera þetta til eins árs, sjá hvaða tekjur koma inn og hvernig við getum nýtt þær. Þetta er partur af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu í hagkerfinu og það er gott. En ég myndi sem sagt vilja skoða þetta svona í stærra samhengi en fagna því að þessi tillaga er þarna inni og tel hana mjög góða.

Svo langar mig að nefna breytingar sem er verið að leggja til á verðmætagjaldi sjókvíaeldis, að það gjald hækki um 1,5 prósentustig og fari því upp í 5%. Ég fagna því að þessi breytingartillaga komi hér inn í tekjubandorminn, ég veit að það er verið að vinna að ýmsu í matvælaráðuneytinu sem kemur að sjókvíaeldi og er miklu víðfeðmara og víðtækara en ég fagna því að þessi breyting komi hérna inn. Svo þurfum við auðvitað að fara bara í talsvert mikla vinnu þegar kemur að umgjörð sjókvíaeldis og við munum þar auðvitað eftir skýrslu ríkisendurskoðanda sem við fjölluðum um á síðasta þingi og ýmislegt sem þar er bent á.

Það er ekki fjallað um gistináttaskatt í þessu frumvarpi en hann var felldur úr gildi tímabundið sem partur af Covid-ráðstöfunum og mun núna aftur taka gildi og ég veit að það er frumvarp frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þingmálaskrá um gistináttaskattinn þar sem einnig á að leggja það til að hann nái til skemmtiferðaskipa, sem ég tel bara mjög gott. En ég myndi vilja og legg til að það verði skoðað núna strax í nefnd hvort ekki ætti að þrepaskipta gistináttaskattinum. Mér finnst skjóta pínulítið skökku við að það sé í rauninni sama gjald sem er greitt hvort sem gist er í tjaldi eða á fimm stjörnu hóteli. Þetta held ég að væri verkefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að fara í og alveg hægt að byrja á því samhliða vinnslu við þetta frumvarp hér.

Svo hefur því verið velt upp hér í umræðunni hvort nefndin ætti að skoða fjármagnstekjuskattsumhverfið eins og það er á Norðurlöndunum og bera það saman við okkar kerfi. Ég verð að segja það að mér finnst þetta bara góð hugmynd og lýsi því yfir að ég er alla vega alveg til í að fara í þá vinnu. Ég held að það myndi ekki gera neitt annað en að auka þekkingu okkar í nefndinni sem erum að fást við skattamálin á því hvernig hlutum er fyrir komið í okkar nágrannalöndum og örugglega ýmislegt sem við getum lært af þeim og mögulega fundið einhver víti til að varast. En ég held að það yrði alla vega bara skemmtileg vegferð.

Líkt og ég hef hér rakið þá tel ég að í þessu frumvarpi séu ýmsar tillögur sem eru ekki bara góður heldur sumar beinlínis nauðsynlegar réttlætisins vegna og ég hlakka til að takast á við málið í efnahags- og viðskiptanefnd.