154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:59]
Horfa

Ragnar Sigurðsson (S):

Virðulegur forseti. Nú þegar við ræðum breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga er mikilvægt að hafa í huga að það eru fjögur meginviðfangsefni sem lögð eru fram í fjárlögum fyrir árið 2024; það er að tryggja aukinn afkomubata umfram fyrri áætlanir, að vinna gegn verðbólguþrýstingi, að viðhalda skýrri forgangsröðun og að auka aðhald í útgjöldum ríkisins. Ég fagna þessum fyrirætlunum og sérstaklega því meginmarkmiði að auka aðhald í ríkisrekstri. Það er til mikils að vinna, bæði með því að einfalda regluverk og draga úr óþarfa ríkisafskiptum. Mitt mat er þó að tækifæri séu til staðar til að ganga lengra í aðhaldi.

Hér á öldum áður störfuðu sparnaðarnefndir á vegum ríkisins og komu með ábendingar til framkvæmdarvaldsins, og eftir atvikum löggjafans, um hvernig mætti draga úr útgjöldum. Deila má um árangur þeirra nefnda, enda var þröngt í búi og efnahagsumhverfið allt annað og erfiðara en nú. Þar stóðu tekjur ríkissjóðs engan veginn undir lögbundinni þjónustu. Nú hafa útgjöld ríkisins stóraukist sem á sér ýmsar skýringar en til að sýna ráðdeild í ríkisrekstri er nauðsynlegt að staldra reglulega við og endurmeta umfang hins opinbera. Við þurfum að rýna í reksturinn og uppfæra þjónustuna. Þar undir er eftirlitshlutverkið og allt regluverk. Að mínu mati er aldrei of langt gengið í þessum efnum.

Á ferðum mínum nýverið um kjördæmið og í samtölum mínum við atvinnulífið er það vaxandi umræðu- og áhyggjuefni hversu þungt og umfangsmikið eftirlitskerfið er orðið. Óþarflega fyrirferðarmikið regluverk og eftirlit kostar ekki einungis útgjöld úr ríkissjóði heldur hefur það hamlandi áhrif á einstaklingsframtakið og dregur úr orku atvinnulífsins. Eftirlitskostnaður er vaxandi útgjaldaliður fyrirtækja og bitnar harðast á einyrkjum sem og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við getum ekki horft fram hjá því að eftirlit ríkisins gegnir ákveðnu hlutverki í að vernda almannahagsmuni og tryggja jafnræði innan markaða en þar hefur átt sér stað mikill vöxtur samhliða auknum umsvifum, fjölbreyttari atvinnugreinum, tækniframförum og fleira. Eftirlit og regluverk má þó aldrei verða svo mikið og umfangsmikið að ábatinn af því verði neikvæður og að það fari umfram þann skurðpunkt sem því er ætlað að gera og dragi þar með úr framleiðslu, samkeppni og atvinnufrelsi.

Með leyfi forseta, sagði Ólafur Thors í almennum stjórnmálaumræðum árið 1936 um atvinnufrelsi:

„Það kann aldrei góðri lukku að stýra, að þeir, sem langa reynslu hafa að baki sér í æfistarfi sínu, þurfi að lúta geðþótta og valdboði annara manna, sem valdir eru til forystu …“

Þessi orð eru mér oft hugleikin í samtölum mínum við atvinnulífið og ég held að þessi upplifun hans eigi enn mikið erindi. Við höfum á undanförnum árum gert vel í því að innleiða rafræna stjórnsýslu og ég tel að næsta skref ætti einmitt að vera innan eftirlitsgeirans. Að auka rafrænt eftirlit og treysta samborgurum í auknum mæli yrði ekki einungis til að draga úr ríkisútgjöldunum heldur einnig til að draga úr kostnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja og auka skilvirkni og afköst. Þannig treystum við betur á tæknina, drögum úr heimsóknartíðni eftirlitsaðila og drögum þar af leiðandi úr kolefnislosun en sköpum þá jafnframt tilefni til að skoða enn frekar sameiningu og samvinnu ýmissa stofnana sem í dag eru að sinna margvíslegu eftirliti sem oft og tíðum skarast jafnvel á.

Löggjafinn og framkvæmdarvaldið þurfa einnig að hafa það hugfast að lög og reglur mega ekki ganga lengra en nauðsyn er. Flókið og umfangsmikið regluverk hefur lamandi áhrif og er auk þess mjög kostnaðarsamt. Þetta var umræðuefnið hér árið 2014 og stjórnvöld settu sér það markmið að einfalda regluverk og samþykktu þá að móta aðgerðaáætlun um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið. Í kjölfarið var hafist handa við að draga úr flóknu regluverki. Þessi vinna skilaði árangri en ég held að hún hafi hvergi nærri lokið sínu ætlunarverki og hafi skilið mikið verk eftir óunnið. Þess vegna vík ég aftur að þeim sparnaðarnefndum sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar því að það er full ástæða til að endurskoða slíkar nefndir sem færu þá reglulega yfir þau regluverk sem þarfnast uppfærslu og endurskoðunar og hafa íþyngjandi áhrif á samborgarana og atvinnulífið.

Mér finnst vel við hæfi að ræða þetta undir þessum lið, í umræðum um skattkerfið almennt og fjármögnun ríkisins, því að hér er til mikils að vinna með auknu aðhaldi. Ákallið er svo sannarlega til staðar víðs vegar í samfélaginu og tækifærin eru fjölmörg, öllum til góðs.