154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

réttlát græn umskipti.

3. mál
[14:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg í umræðu um þessa þingsályktunartillögu um réttlát græn umskipti sem þingflokkur Samfylkingarinnar flytur í heild sinni og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur fylgt hér úr hlaði. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta efnislega nema að hnykkja á nokkrum atriðum. Mig langar til að nýta þetta tækifæri til að benda hv. þingmönnum á að íslenska verkalýðshreyfingin hefur sannarlega lagt margt til málanna þegar kemur að réttlátum umskiptum og nauðsynlegum kerfisbreytingum frá jarðefniseldsneytishagkerfinu yfir í hagkerfi sem er drifið áfram af endurnýjanlegri orku. Við vitum auðvitað að það mun hafa þó nokkur áhrif á vinnumarkað, á stöðu fólks á vinnumarkaði og störfin sem verða í boði. Það er langt síðan íslenska verkalýðshreyfingin fór að hugsa um það og undirbúa, fræða og mennta sitt fólk svo að það gæti tekist á við þessi umskipti.

Í marsmánuði árið 2021 kom út skýrsla Norræna verkalýðssambandsins, NFS, ásamt Þýska alþýðusambandinu um réttlát umskipti í loftslagsmálum. Að þeirri skýrslu stóðu Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna og BSRB. Þar eru tillögur um aðgerðir sem sagt er að stjórnvöld þurfi að grípa til og ég hygg að flestar, ef ekki allar þær tillögur séu enn í fullu gildi rúmlega tveimur árum eftir útgáfu þessarar skýrslu. Í tilefni af þeirri útgáfu var gefin út sameiginleg yfirlýsing ASÍ, BHM og BSRB og mig langar, með leyfi forseta, að vitna beint í hana. Þar segir m.a.:

„Á Íslandi er stéttarfélagsaðild almenn, atvinnuþátttaka mikil og atvinnustig að jafnaði hátt. Ef fleiri störf tapast en verða til, ef atvinnuöryggi minnkar og hlutfall láglaunastarfa eykst á kostnað annarra starfa mun það hafa í för með sér aukinn tekjuójöfnuð og grafa undan samfélagslegri einingu og velmegun. Íslensk stjórnvöld þurfa því að vinna markvisst að því að móta hagkerfi fyrir framtíðina með stefnu í atvinnumálum og tengja hana við menntun, færni, vinnumarkaðinn, tæknibreytingar og nýsköpun. Einnig þarf að móta fjárfestingarstefnu fyrir lágkolefnishagkerfi og nýta skatta- og tekjutilfærslukerfin með jöfnuð að leiðarljósi. Í stefnu um sjálfbært, grænt hagkerfi verður að leggja áherslu á að skapa góð störf, öfluga almannaþjónustu og trygga afkomu.“

Það skiptir nefnilega lykilmáli þegar tekið er til við aðgerðir vegna loftslagsbreytinga, vegna hamfarahlýnunar að markmiðin séu alveg skýr, að leiðarljós stjórnvalda séu alveg skýr og það sé ljóst að markaðurinn einn verði ekki látinn um þessar breytingar. Markaðurinn einn er nefnilega blindur á félagslegar afleiðingar, oftast nær, og ef illa tekst til þá getur hann dýpkað ójöfnuðinn en ekki aukið hann.

Það er mikilvægt að þetta komi hér fram vegna þess að aukinn jöfnuður, meiri sanngirni, aukinn efnahagslegur jöfnuður, bæði í okkar samfélagi og á milli landa og innan landa, er lykillinn að árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og í árangri í baráttunni í umhverfisvernd yfir höfuð. Það er þegar misskiptingin er sem mest að afleiðingar loftslagsbreytinganna verða hvað verstar. Við sjáum það bara gerast fyrir augunum á okkur núna í hverjum einasta fréttatíma. Þess vegna er jöfnuður lykill að árangri í þessu mikilvæga máli. Við eigum nefnilega öll rétt á að njóta ávaxtanna af alvöruloftslagsaðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma á endanum í veg fyrir hamfarahlýnun sem við því miður við stefnum of hratt í ef allt fer sem horfir.

Við erum ekki að tala um neinar litlar breytingar í sjálfu sér, við erum að tala um kerfisbreytingu sem m.a. felur í sér að allar opinberar fjárfestingar og öll skattapólitík hins opinbera verður að miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta snýst nefnilega um nýja fjárfestingarstefnu fyrir hið opinbera sem er skýr og kemur og styður við öll önnur markmið eða aðgerðaáætlanir stjórnvalda. Þess vegna t.d. eiga fjárfestingar í almenningssamgöngum, bara svo eitt lítið dæmi sé nefnt, að vera miklu meiri en þær eru núna samkvæmt alla vega af þeim hugmyndum sem ég hef séð opinberlega, t.d. í nýrri samgönguáætlun, vegna þess að við eigum að ýta undir opinberar fjárfestingar í öllu því sem færir okkur minni útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þetta hljómar ekki neitt sérstaklega flókið en það virðist hins vegar vera auðveldara um að tala en í að komast.

Að lokum langar mig af þessu tilefni að nefna að á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar í morgun var fjallað um starf fráfarandi loftslagsráðs og m.a. það uppgjör sem ráðið sendi frá sér núna í júní síðastliðnum þar sem ráðið m.a. beinir orðum sínum beint til Alþingis, ekki bara til framkvæmdarvaldsins, og hvetur þingmenn til að eiga í opnum og upplýstum bæði umræðum hér í þessum sal og líka, ekki síður, í opnum samskiptum og upplýsandi og beita sér fyrir betri fræðslu og upplýsandi umræðu um loftslagsmálin almennt í samfélaginu. Ég hygg að þessi tillaga gæti hjálpað til við að gera einmitt það og að koma á rekspöl hugmyndum og þeirri hugmyndafræði sem er í sjálfu sér ekkert ný af nálinni af því að við erum þannig séð búin að vera að tala um nauðsyn þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nauðsynina fyrir græn umskipti og fyrir þessa miklu kerfisbreytingu sem verður að eiga sér stað fyrr en síðar til að við náum utan um loftslagsbreytingarnar og reynum að tefja þær og draga úr þeim og vonandi á endanum að stöðva hamfarahlýnun sem hefði hrikalegar afleiðingar fyrir fólkið sem býr á þessari jörð.