154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

réttlát græn umskipti.

3. mál
[14:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Oft liggur Alþingi undir ámæli, og stjórnvöld kannski ekki síst, fyrir að stunda fyrst og fremst einhvers konar viðbragðsstjórnmál, að taka á hlutum þegar stefnir í óefni eða þegar í óefni er komið og hrósa svo happi ef vel spilast úr hlutunum, ef nýr fiskstofn siglir inn í lögsöguna eða ferðamenn fara að streyma inn í landið og allir eru ánægðir á meðan uppsveifla af þess völdum er í gangi.

Hér er hins vegar mál, sem er kannski eitt mikilvægasta málið sem er dreift núna í haust, sem hvetur til þess að við horfum kynslóð og kynslóðir fram í tímann og tökum meðvitaða ákvörðun um hvernig við getum tryggt jöfnuð í samfélaginu samfara gríðarlegum samfélagsbreytingum sem eru augljóslega að verða. Við stöndum frammi fyrir tveimur hlutum sem munu hafa ótrúlega stór áhrif á okkur. Annar er tæknibreytingin sem mun ríða yfir hvort sem við viljum eða ekki. Hún getur auðvitað haft hryllilegar afleiðingar en hún getur líka verið nýtt til góðs; við getum aukið hagvöxt, við getum notað hana til þess að minnka kolefnisspor og það er hægt að minnka ójöfnuð líka. En það þarf þá að gerast með meðvituðum hætti. Síðan erum við með hitt stóra málið sem eru loftslagsmálin, sem eru sameiginlegt verkefni allrar heimsbyggðarinnar og eru í þeim skilningi eins og tæknibreytingin ekki valkvæð fyrir okkur að sinna. Það kemur mjög vel fram í greinargerð með þessu máli að hverju þarf að huga sérstaklega. Ég ætla ekki að dvelja við það, það kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, en lykiljafnan í þessu öllu saman er einmitt jöfnuður. Jöfnuður er af ýmsum toga. Hann er auðvitað efnahagslegur og það er mjög brýnt að við tryggjum að þau sem eru á lægri tekjum geti tekist á við framtíðina og lifað mannsæmandi lífi þrátt fyrir miklar þjóðfélagsbreytingar, til jafns við þá sem eru með hærri laun. Það þarf líka að huga að kynslóðajöfnuði vegna þess að við þurfum hugsanlega að ráðast í gríðarlega dýrar framkvæmdir, og með hvaða hætti ætlum við að fjármagna það? Við viljum ekki að þessar breytingar bitni á komandi kynslóðum en við viljum heldur ekki taka kostnaðinn allan í einu þannig að þetta bitni á öldruðu fólki sem nú býr í þessu landi og hefur byggt upp samfélagið okkar. Og síðan, af því að ég kem úr mjög dreifbýlu kjördæmi, vil ég nefna að það þarf að hafa í huga búsetujöfnuð. Ég hef 100 sinnum áður nefnt það að á meðan fyrir 120 árum bjuggu 10% allra landsmanna á höfuðborgarsvæðinu þá búa 70% þeirra núna þar, þannig að það þarf að huga að öllu landinu og gera öllum kleift að taka þátt í þessum breytingum.

Við viljum öll geta lagt okkar af mörkum. Við þurfum hins vegar, eins og kom fram í ræðunni, að byggja upp almenningssamgöngur og við þurfum að færa okkur yfir í vistvænni bíla. En við vitum það líka að sökum strjálbýlis utan höfuðborgarsvæðisins er óhjákvæmilegt að það verði einhvers konar markaðsbrestur við uppbyggingu á innviðum. Það er ekki augljóst að einkafyrirtæki hafi áhuga á því að stunda viðskipti og setja upp hleðslustöðvar þar sem umferð er lítil. Það þarf engu að síður að gera það og við þurfum að finna leiðir til þess að hleypa hinu opinbera að því eða styrkja einkafyrirtæki með einhverjum hætti til þess að gera það freistandi. Það má hugsa sér t.d. að lækka tengigjöld Rariks. Eins er með almenningssamgöngur að það getur vel verið að það sé hægt að reikna það út að þær séu ekki jafn hagkvæmar um allt land en engu að síður eru það mannréttindi okkar að geta búið alls staðar og við þurfum að geta tryggt að fólk úti á landi geti tekið þátt í þessum grænu umskiptum, svo ég tali nú ekki um atvinnulífið. Það er auðvitað óboðlegt að við höfum ekki náð betur utan um flutning á raforku, sem margir vilja meina að sé nóg af í þessu landi, en svo að það þurfi að keyra heilu fiskvinnslurnar á svartolíu og fólkið sem þar býr og getur hvorki drifið sínar nauðsynlegu verksmiðjur áfram af rafmagni, hvað þá að rafvæða hafnir, fyllist einhverju samviskubiti yfir að taka ekki þátt í hlutum sem byggja á markmiðum sem eru tímasett. Ef við tímasetjum markmið þurfum við líka að hugsa til þess hvernig eigi að gera fólki kleift að lifa eftir því.

Það eru ókostir við það fyrirkomulag sem við höfum þróað á síðustu 100 árum. Hér býr allt of hátt hlutfall landsmanna á einum bletti og risastórir landshlutar eru mjög strjálbýlir. En við verðum líka að horfa á kostina við það vegna þess að staðan er bara þessi. Kostirnir eru auðvitað þeir að vegna þess einmitt að 70% landsmanna búa hér á höfuðborgarsvæðinu þá getum við náð alveg gríðarlegum árangri í loftslagsmálum akkúrat hér. Þar er nærtækast að horfa til uppbyggingar borgarlínu, byggja upp göngu- og hjólastíga sem gera almenningi kleift að ferðast á milli án kostnaðar. Það stuðlar líka að réttlátum grænum umskiptum vegna þess að það er dýrt, og óþarflega dýrt, að vera háður einkabílnum.

Það er annað sem skiptir líka máli í þessu sambandi og hefur kannski allt of lítið verið rætt vegna þess að almenningssamgöngur sem hafa verið til í einhverri mynd í 150 ár voru ekki fyrst og fremst byggðar til að ná loftslagsmarkmiðum heldur til að tryggja félagslegt réttlæti, gera öllum almenningi kleift að komast á milli staða án mikils kostnaðar. Öll skipulagsfræði borga síðustu 150–200 ár sýnir að jákvæð áhrif sterkra almenningssamgangna birtast ekki síst í því að það verða til hvatar til að byggja upp hagkvæmari byggð, þ.e. sterkar almenningssamgöngur sporna gegn óhóflegri útbreiðslu bæja og borga sem hefur verið svona megingallinn á þessu ameríska bílalíkani sem allar vestrænar borgir hafa byggt eftir síðustu 50–60 ár. Þær hvíla á hugmyndinni um flokkun og aðgreiningu þar sem þú býrð á einum stað, ferð og verslar á öðrum stað, sækir íþróttakappleiki eða menningarviðburði á þriðja staðnum og þetta þarftu svo að tengja saman með fáránlega stórum, dýrum og loftslagsfjandsamlegum samgönguvegum. (Gripið fram í: Samgöngum.) — Já, samgöngum, það er einfaldara. Þetta í rauninni vindur alltaf upp á sig; þú þarft alltaf nýja akbraut og nýja slaufu, nýja akbraut og nýja slaufu. En sterkar almenningssamgöngur hvetja til ögunar þannig að þær þétta byggðina, gera hana hagkvæmari og gera hana umhverfisvænni.

Hugum að öllu landinu. Við þurfum að huga að því að allir geti tekið þátt í þessu. En nýtum okkur líka þá fáu kosti sem eru við það að við erum 70% á þessum bletti, látum hendur standa fram úr ermum og klárum samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það er öllum landsmönnum til góða.