154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

4. mál
[15:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði til þess að þakka þingflokki Flokks fólksins fyrir þetta frumvarp. Það að vera ekki meðflutningsmaður þýðir ekki að maður sé á móti eða með því. Það kemur alltaf í ljós í atkvæðagreiðslu um málið þegar allt kemur til alls. Kannski er það þannig að fólk hefur aðrar hugmyndir um það hvernig eigi að ná ákveðinni grunnframfærslu. Við í Pírötum höfum t.d. talað fyrir grunnframfærslu með einhverju fyrirkomulagi eins og borgaralaunum og þess háttar. Þannig að nákvæma útfærslan, þó að niðurstaðan sé kannski svipuð, væri eitthvað sem við værum tvímælalaust sammála. Hver veit nema þetta frumvarp, ef það færi alla leið í atkvæðagreiðslu, að við myndum greiða atkvæði með því. Það er ekkert ólíklegt. En ef við höfum eitthvað um það að segja þá myndum við kannski hafa frumvarpið eilítið öðruvísi og þar af leiðandi ekkert endilega vera meðflutningsmenn á þessu frumvarpi. Þannig að mér finnst pínu óheppilegt að kvarta undan því að einhverjir þingmenn sem fá, ég veit ekki hversu marga tugi beiðna um að vera með á þingmálum, sem þarf stundum að lesa á mjög tæknilegan hátt á mjög skömmum tíma, að það sé einhvern veginn skammaryrði yfir það að vera ekki með á einu eða öðru máli. Ég vildi bara koma því að í umræðunni að það að vera ekki meðflytjandi á máli þýðir ekki að maður sé á móti því.