154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[16:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Þetta er auðvitað eitthvað sem er vel þekkt stef, bæði að stjórnmálaöfl og ýmiss konar samtök sjái sér einhvers konar hag í því að þyrla upp moldviðri, ala á ótta við útlendinga, halda úti einhverjum falsfréttaveitum jafnvel, rugla umræðuna til þess einmitt að búa til ástand sem ýtir þá undir einhvers konar fylgisaukningu flokks eða þá einhvers konar auknum stuðningi við tiltekin samtök sem eru þannig innréttuð.

Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram að hér séu flokkar á Íslandi sem væru ekki til í að taka þátt í svona samtali. Ég leyfi mér að vona það að allir ábyrgir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi komi inn í þessa vinnu og sjái að það er samfélaginu fyrir bestu að reyna að ná einhverjum friði og sátt um þennan málaflokk. Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram að einhverjir tilteknir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar séu ekki tilbúnir í þetta. Ég hef tekið eftir því að sumir þeirra sem vilja loka landinu mjög einbeitt hafa sagt þetta sama, t.d. um flokk hv. þm. Pírata, að Píratar vilji ekki taka þátt í einhverju samkomulagi vegna þess að það hagnist þeim pólitískt að taka umræðuna frá þeim hóli sem þeir eru staðsettir á. Þetta er eitthvað sem ég ætla ekki heldur að gefa mér því ég raunverulega trúi að þegar til kastanna kemur þá viljum við öll sem erum kjörnir fulltrúar koma málum þannig fyrir að við getum horft framan í þjóðina og verið sátt við það að þótt útlendingalöggjöf verði aldrei fullkomin þá séum við a.m.k. að reyna að afgreiða hana í ágætri sátt. Það hlýtur að vera uppleggið að leyfa sér að vona.