154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[16:54]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að lýsa yfir stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við það frumvarp sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, um afnám þjónustusviptingar. Hér hefur framsögumaður, hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, farið ítarlega yfir ástæður þess að frumvarpið er lagt fram og ég held að flestir hér í þessum sal þekki þá sögu ágætlega hafi þau á annað borð fylgst með umræðum í þingsal síðasta árið eða svo. Hér er í rauninni verið að gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að draga til baka þau miklu mistök sem gerð voru þegar hér var illu heilli samþykkt svokölluð 30 daga regla eins og hún hefur verið nefnd í daglegu tali sem þjónustusviptir einstaklinga sem ekki hafa fengið alþjóðlega vernd, með þeim afleiðingum að fólk getur endað og er að fara á götuna, og núna í stórum stíl. Nýjustu fréttir herma að það séu tæplega 60 manns sem hafi fengið tilkynningu um þjónustusviptingu.

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk stjórnmálafólks að finna lausnir en ekki að búa til ný vandamál í samfélaginu. Hér er á ferðinni það sem ég vil kalla heimatilbúið mannréttindabrot. Eins og komið hefur fram í ræðum þeirra hv. þingmanna sem talað hafa var þingið, hæstv. ráðherra, þingmenn og þingnefnd margsinnis vöruð við því að gera þessa breytingu af öllum þeim aðilum hér á landi, hagsmunasamtökum og öðrum, sem best þekkja til þessa málaflokks og eru að vinna í honum alla daga.

Það hafði líka gerst, að mér skilst, og hv. fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, greindi frá því að þegar hún fór með allsherjar- og menntamálanefnd í ferðalag, til Danmerkur held ég, þá hefðu nágrannar okkar í Danmörku sagt: Ja, við viljum ekki að fólk þurfi að búa undir brúm eða úti á víðavangi. Það er alveg ástæða fyrir því að stjórnvöld hafa ekki gengið svona langt í nágrannalöndum okkar. Það leysir engan vanda og í rauninni virðist þetta vera fyrst og fremst einhvers konar tilraun til að senda pólitísk skilaboð sem tala beint inn í skautun í umræðunni hér á landi, í stjórnmálunum, á samfélagsmiðlum, og meðal almennings og líka væntanlega pólitísk skilaboð út í heim um að hér sé fólki mætt af fullri hörku.

Staðreyndin er auðvitað sú og hefur margoft komið fram í þessari umræðu að það er ekki hægt að endursenda, ef svo smekklega má að orði komast um fólk, alla þá sem ekki fá hér alþjóðlega vernd til síns heima eða til annars lands. Til að það sé hægt þarf móttökulandið að vera tilbúið til að taka við viðkomandi og við vitum að það gengur ekki alltaf. Síðan eru bara hin praktísku rök sem blasa svo við og brjóstvitið segir manni að það sé eðlilegt að gefa fólki tækifæri ef það getur ekki farið neitt annað. Hvers vegna fær það þá ekki að vera? Hvers vegna fær það þá ekki leyfi til að sækja um vinnu og vera hér?

Ég hef aldrei skilið beinlínis hvernig meiri hlutinn hér á Alþingi horfir á málið frá þessum sjónarhóli. Fólk hefur farið hér mikinn um lögbrot og lögleysu og við höfum svo sem heyrt það víða, bæði hér í þessum sal og víðar. Staðreyndin er sú að við — þ.e. meiri hlutinn, ég tók ekki þátt í því og ekki þingflokkur Samfylkingarinnar og sem betur fer erum við ekki öll þeirrar skoðunar hér í þessum sal — leyfðum okkur að setja í lög reglu sem er ekki framkvæmanleg. Það eitt og sér ber þingstörfunum ekki gott vitni og heldur ekki því hvort við sem þingmenn og kjörnir fulltrúar höfum bara yfir höfuð áhuga á því að hlusta á skoðanir og ráð þeirra sem eru sérfróðir um þessi málefni og vinna í þeim alla daga.

Það getur vel verið að þingmenn haldi að þeir viti betur og þekki málin út í hörgul og alveg örugglega margir þingmenn og ýmsir þingmenn, og ég efast ekki um að hv. fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps þekki þennan málaflokk betur en eiginlega allir aðrir í þessum sal, en það að taka ekki mark á umsögnum og það að fara fram með breytingu sem allir eru búnir að vara við, það gengur bara ekki upp, gengur ekki upp sem lýðræðisleg vinnubrögð og það gengur heldur ekki upp af því að í því felst bara frekar hættuleg pólitík, finnst mér. Hún er frekar hættuleg og hún er ógeðfelld. En þetta varð niðurstaðan. Hér eins og víða annars staðar ræður auðvitað meiri hluti þings niðurstöðunni en við sem erum að flytja þetta mál með hv. flutningsmanni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, vonum að með því að setja það aftur á dagskrá hér og taka það til umræðu þá verði kannski hægt að fá meiri hlutann á þingi til að skoða það aftur af fullri alvöru og fullri einlægni í ljósi þess að allt það sem var sagt að myndi gerast er að gerast. Hinn heimatilbúni vandi verður ekki leystur nema við, löggjafinn, leysum þann vanda sem við bjuggum til og drögum þessa breytingu til baka og hér er tækifæri til að gera það.

Ég vona svo sannarlega að um það geti myndast á þessu nýja löggjafarþingi ný sátt. Hér hefur svolítið verið talað um gömlu sáttina í útlendingamálum sem náðist á árunum 2016–2017, ef ég man rétt, og flestir stóðu að, líklega kannski ekki allir stjórnmálaflokkar. Ég man það reyndar ekki alveg. Það væri bæði þakkarvert og það væri mikið framfaraskref fyrir stjórnmálin og fyrir okkur sem samfélag ef okkur tækist að ná saman um að taka þessa breytingu til baka, horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er og láta það ekki gerast að það sé með boðvaldi verið að setja fólk á götuna.