154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:09]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sem skiptir kannski mestu máli í þessari umræðu, fyrir utan að við hv. þingmaður erum sammála um það að að sjálfsögðu þurfi að vera lög um málaflokkinn og reglur og öll málsmeðferð eins og hún á að vera samkvæmt góðri stjórnsýslu, sé það að þegar reglan sem hér um ræðir er ranglát og býr til misrétti, býr til heimilisleysi, þá leysir hún engan vanda fyrir þá einstaklinga sem um ræðir og leysir heldur engan vanda fyrir íslenskt samfélag. Ef við tækjum það bara þannig að þetta snerist um krónur og aura, sem það gerir reyndar stundum, þá kostar margfalt meira að búa til endursendingarbúðir og halda þeim starfandi heldur en að veita þessum fáu einstaklingum leyfi til að dvelja í landinu þegar það liggur ljóst fyrir að þau geta ekki farið neitt. Við verðum að hætta að berja höfðinu við steininn. Ef þau geta ekki farið þá verðum við að horfast í augu við það. Grundvallaratriðið er, eins og kom fram áðan í ræðu minni og öðrum ræðum hér fyrr í þessari umræðu: Meiri hlutinn á þinginu var ítrekað varaður við að setja þessar reglur í lögin, ítrekað varaður við, margoft, í mörg hundruð ræðum. Fyrir lágu umsagnir sérfróðra aðila, hjálparsamtaka og aðila sem eru að vinna í þessum málaflokki alla daga. Ég held að meiri hlutinn hafi ákveðið að horfast ekki í augu við raunveruleikann, horfast ekki í augu við aðstæður fólks heldur að senda pólitísk skilaboð sem núna koma, eins og bjúgverpill, aftur í höfuðið á honum.