154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður minntist hér á hinar íslensku sérreglur, hér séu aðrar reglur en annars staðar. Ég get ekki séð annað en að það séu enn þá íslenskar sérreglur. Það er m.a. sú regla að vegna sérstakra tengsla þá getur þú sótt aftur um alþjóðlega vernd þegar þú ert kominn með alþjóðlega vernd í öðru ríki. Kannski hv. þingmaður geti útskýrt það nánar fyrir mér hvers vegna þarf að veita alþjóðlega vernd tvisvar til einstaklings, af hverju Ísland eigi að veita einstaklingi í annað skipti alþjóðlega vernd þegar hann er kominn með alþjóðlega vernd. Ég hefði haldið að hann gæti bara sótt um dvalarleyfi. Af hverju var þessi regla ekki tekin út fyrst við erum að tala um íslenskar sérreglur? Í mínum huga er þessi málaflokkur algjörlega stjórnlaus og þetta er að stórum hluta skrípaleikur vegna þess að þegar fólkið var flutt í þvingaðri brottför til Grikklands í vor þá kom það til baka með sömu vél og lögreglumennirnir eiginlega, ég held að það hafi verið með sömu vél. Einhverjir komu með sömu vél eða strax á eftir og sóttu aftur um alþjóðlega vernd og umsóknarferlið hófst að nýju. Þannig er nú það. Hún talaði um lokuð búsetuúrræði. Það var margsinnis varað við því varðandi breytingarnar á 9. mgr. 33. gr. laganna að fólk myndi eftir 30 daga lenda í örbirgð. Það er brot á 76. gr. stjórnarskrárinnar og brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er dómur í Strassborg, hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, um svipað atvik. Þar var sagt: Jú, það er lokað búsetuúrræði, þetta er ekki brot. Þannig að við erum núna komin á byrjunarreit aftur. Hvernig stendur á því að íslensk sveitarfélög voru ekki spurð álits á þessu þegar það var sagt við okkur að sveitarfélögin myndu taka við þessu fólki? Þau sögðu sum að þau myndu ekki gera það. Hvernig stóð á því að það var ekki talað við þau? Hvaða lapsus var það? Svo er annað, ég get ekki annað séð þegar ég skoða þingmálaskrána og sé frumvarp til laga um lokuð búsetuúrræði, en að stjórnvöld, ríkisstjórnarmeirihlutinn, séu einfaldlega að viðurkenna mistök í lagasetningu sem áttu sér stað í vor. Og hvernig stendur á því (Forseti hringir.) að það sé ekki breyting á 9. mgr. 33. gr. laga um útlendinga þar sem talað er um að fólk missi alla þjónustu eftir 30 daga, það sé ekki sett í þá lagagrein heldur komi ný lög, sérlög um lokuð búsetuúrræði? Hvers konar lagasetning er þetta?