154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir orðaði það mjög vel hérna áðan þegar hún sagði, með leyfi forseta: „Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk stjórnmálafólks að finna lausnir en ekki að búa til ný vandamál í samfélaginu.“

Ég vil byrja á að segja: Það var ekkert sérstakt brýnt aðkallandi vandamál í kerfinu hér á landi, að fólk væri í unnvörpum að neita að fara þegar þessi lög voru sett sem ég er að leggja til að verði afnumin. Þegar lögin tóku gildi í sumar var um 30 einstaklingum vísað á götuna, á guð og gaddinn, sem sumir hverjir hafa verið hér svo árum skiptir. Lögin hafa verið þannig um árabil og í rauninni alla tíð að fólk nýtur áfram grunnþjónustu; húsaskjóls, mjög lítils fæðispenings og grunnheilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að ekki sé hægt að flytja það nauðugt úr landi. Á margra ára tímabili var hópurinn samt ekki orðinn stærri en þetta.

Ég ætla samt ekki að gera lítið úr því að þetta er vandamál. Það að einstaklingur fái synjun á umsókn sinni um dvalarleyfi en telji sér engu að síður ekki fært að fara aftur til upprunaríkis er ekki bara vandamál fyrir kerfið, fyrir samfélagið, það er vandamál fyrir viðkomandi einstaklinga. Þetta er vandamál, ég ætla að taka undir það. Þarna er uppi einhver ágreiningur og ákvörðun sem íslensk stjórnvöld hafa tekið sem ekki er hægt að framfylgja. Þá þarf að leita annarra lausna. En hvað er þá til ráða?

Ég ákvað að koma hérna upp í aðra ræðu um þetta mál til að vekja athygli á því sem mér tókst ekki í flutningsræðu minni, sem er: Hvað er til ráða? Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir spurði að þessu í andsvari sínu til hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur hér áðan. Lausnin veltur auðvitað á ástæðum vandans sem er afar ólíkur í þeim málum sem um er að ræða þarna, stundum er ágreiningur um ríkisfang eða ágreiningur um aðstæður í heimaríki. Í slíkum tilvikum væri nánari skoðun á máli viðkomandi mögulega betri lausn en að henda þeim út á guð og gaddinn. Nú hef ég verið viðloðandi aðstoð við flóttamenn síðan 2009 og raunar er það svo að mörg mál hafa verið leyst einmitt þannig í gegnum tíðina, hingað til, og er það eflaust ein af ástæðum þess að hópurinn er ekki stærri en þetta. Við Íslendingar erum góð í að skítamixa þrátt fyrir að kerfin okkar séu ekki alltaf þau fagmannlegustu og ekki fara þau batnandi. Önnur ríki hafa fundið ýmsar lausnir. Það er nefnilega ekki svo að við séum fyrsta ríki í heiminum að lenda í þessu. Þetta er þekkt áskorun í öllum ríkjum í Evrópu og annars staðar og hefur verið lengi. Við þurfum því ekkert að finna upp hjólið, sem við vorum hins vegar að gera með þessari frábæru lausn sem var mjög frumleg og er ekki beitt annars staðar; að svipta fólk bara allri þjónustu og krossleggja fingur.

Ein lausn sem sum ríki bjóða upp á er svokölluð umborin dvöl með atvinnuleyfi á meðan ekki er hægt að flytja viðkomandi. Þetta gæti t.d. átt við þegar ekki er hægt að flytja viðkomandi vegna skorts á endurviðtökusamningum. Ef það er endurviðtökusamningur í vinnslu væri hægt að veita fólki atvinnuleyfi á meðan. Það væri þá ekki á framfæri ríkisins á meðan en kannski engin hætta á að það setjist hér að, sem er auðvitað það sem stuðningsmenn þessa frumvarps, held ég, óttast einna helst. Staðan í dag er nefnilega ekki þannig að fólk í þessari stöðu geti sótt um aðrar tegundir dvalarleyfa. Það er mjög algengur misskilningur í samfélaginu að það sé hægt að fá dvalarleyfi hérna ef þú finnur vinnu. Það er bara ekki þannig. Það er gríðarlega erfitt fyrir einstaklinga utan EES að fá hér dvalarleyfi. Það eru mjög fáar tegundir dvalarleyfa í boði og skilyrði þröng. Þetta veit fólk.

Þær rýmkanir sem ríkisstjórnin hefur viljað gera, og hefur gert að einhverju leyti, lúta að þeim dvalarleyfum sem til eru nú þegar. Það er ekki verið að búa til ný dvalarleyfi. Sum ríki hafa tekið upp svokölluð atvinnutengd námsleyfi fyrir einstaklinga. Nú er ég að tala um þessa einstaklinga sem dómsmálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins vill kalla að séu í ólöglegri dvöl en við erum að tala um einstaklinga sem eru í því sem önnur ríki kalla umborinni dvöl. Þýskalandi er farið að taka upp inngildingarsamninga. Það eru samningar sem fólk undirritar þar sem það skuldbindur sig til að læra tungumálið, taka jafnvel námskeið í menningu og sögu lands og þjóðar, finna sér vinnu innan tiltekins tíma, halda vinnu og ef það stendur sig, stendur sína plikt — mig minnir að í einhverjum tilvikum séu þetta 18 mánuðir — þá getur það fengið að vera. Þetta er það sem ríki í Evrópu eru að gera. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir telur að kerfið muni hrynja verði einstaklingum í þessari stöðu gefinn kostur á annars konar dvalarleyfi. Ég veit ekki til þess að Þýskaland sé hrunið til grunna. Kanada er nú bara eitt hagsælasta ríki heims og hefur haft svona kerfi frá árinu 1979. Það eru 44 ár, forseti. Sú er hér stendur nær ekki einu sinni þeim tíma á þessari jörðu. Kanada er líka með kerfi sem er svokallað bakhjarlakerfi þar sem einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök geta gengist í ákveðna ábyrgð gagnvart tilteknum einstaklingum. Kerfi af þessu tagi hafa verið kynnt í, og ég bið hv. þingmann að hlusta vel: Írlandi, Belgíu, Bretlandi, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi og Argentínu. Eru önnur lönd einnig að skoða þessa leið eins og Finnland — sem er Norðurlandaþjóð — og Sviss. Kanada var hins vegar fyrst ríkja til að kynna þetta og hefur það gefist svo vel að önnur ríki eru að skoða þetta, eru farin að tala um aðrar lausnir.

Ég endurtek það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði í ræðu sinni hér áðan og ég mun endurtaka oft á mínum þingferli héðan af: Það er hlutverk stjórnmálamanna að leysa vandamál í samfélaginu en ekki að búa þau til. Jafnvel þau sem eru á því máli að réttast væri að loka allt þetta fólk inni sjá að þetta lagaákvæði um þjónustusviptingu eru mistök. Þetta eru mistök, það býr til vandamál en leysir þau ekki.