154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið við andsvari. — Með skýrum hætti? Hvað kemur fram með skýrum hætti? Við erum þjóðkjörnir fulltrúar hérna inni í þessum sal. Það er skýr vilji þjóðarinnar, hvernig þau kusu til þings. Skoðanakannanir eru fínar til síns brúks og þær sýna ákveðnar sveiflur og ákveðna umræðu í samfélaginu en það er áberandi að þegar við erum að takast á við einhverjar áskoranir eða erfiðleika þá eru fleiri sem eru tilbúnir að velta því fyrir sér hvort það sé mögulega betra að ganga í ESB. Það er alveg skiljanlegt og ég fagna því að við tökum þá umræðu hér en tökum hana þá af einhverri alvöru, hvað það þýðir að ganga í Evrópusambandið. Aftur vil ég hrósa hv. þingmanni og hennar flokki fyrir að vera skýr í þeirri afstöðu sinni að vilja ganga í Evrópusambandið, en við verðum líka að þora að taka umræðuna alla leið og það er ekki bara hægt að tala um kostina, það þarf líka að tala um galla. Það er ekkert allt svo frábært í Evrópusambandinu. Evrópusambandið er að glíma við fullt af vandamálum. Evrópusambandið er að glíma við verðbólgu. Evrópusambandið hefur verið að glíma við töluvert atvinnuleysi, atvinnuleysi hjá ungu fólki, og áskoranir eru svo sannarlega til staðar þar líka. En eitt vil ég segja við hv. þingmann: Ef einhvern tímann kæmi til þess að taka aftur upp viðræður við Evrópusambandið um mögulega aðild þá að sjálfsögðu þyrftum við að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en hafist væri handa við að taka upp slíkar viðræður. Það er nákvæmlega um það sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði árið 2013, af því að hv. þingmaður var að vísa í þá ályktun. Við skulum halda því til haga. En það er líka mikilvægt, hv. þingmaður, að á meðan talað er um þá kosti sem mögulega einhverjum kann að finnast vera við það að ganga í Evrópusambandið þá skulum við líka tala um það sem þar gengur ekki jafn vel. (Forseti hringir.) Við höfum sýnt það aftur og aftur að Ísland er í fremstu röð. Hér eru lífsgæði með því besta (Forseti hringir.) í heiminum, mun betri en víða í Evrópusambandinu, þrátt fyrir þær áskoranir sem við kunnum að glíma við núna og höfum glímt við til skamms tíma.