154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og hv. framsögumaður þessa máls sem við ræðum hér, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fór yfir þá hefur þetta mál verið lagt fram nokkrum sinnum áður, síðast á síðasta þingi og það var 3. mál. Formaður Samfylkingarinnar mælti fyrir málinu 15. september og það var 3. mál og fremsta forgangsmál Samfylkingarinnar. Ég segi þetta bara til að benda hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur á þetta vegna þess að hana misminnti hvað þetta varðaði í andsvörum hér áðan.

Herra forseti. Stefna Samfylkingarinnar er alveg skýr. Við viljum að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil að Ísland gangi í Evrópusambandið svo við getum öll haldið áfram að búa á Íslandi, öll, líka unga fólkið okkar, vel menntaða unga fólkið okkar sem leitar út eftir störfum við hæfi sem ekki fást hér á landi. Ég fór með stutta tölu við opnun Evrópustofu árið 2012 og var þá enn vongóð um að aðildarviðræður við Evrópusambandið myndu skila okkur samningi sem þjóðin gæti kosið um. Þá var ég fjármálaráðherra og von mín sú að ungt fólk á Íslandi myndi sannfærast um eftir að hafa kynnt sér málin, m.a. með kynningum Evrópustofu, að framtíðin feli í sér meira samstarf Íslands á alþjóðavísu og stöðugra umhverfi fyrir sífellt flóknara atvinnulíf. Evrópustofu var síðan lokað í september 2015, stuttu eftir að bréfið fór frá þáverandi utanríkisráðherra út til Evrópusambandsins með tilkynningu um að umsóknarferlið væri stöðvað.

En auðvitað, eins og búið er að fara yfir í þessari umræðu, þá bara gerast kaupin ekki svona á eyrinni. Ef Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu þá þarf Alþingi að samþykkja að henni eigi ekki lengur að fylgja eftir. Það er gríðarlegt hagsmunamál undir við inngöngu í Evrópusambandið. Við höfum siglt ólgusjó vegna krónunnar sem leiðir okkur stundum upp í hæstu hæðir en svo aftur niður í öldudali. Þetta hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækja heldur líka á rekstur heimila sem þurfa að bera kostnaðinn af himinháum vöxtum og verðtryggingu. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki upp evru myndu vextir lækka og verðtrygging verða úrelt og óþörf. Allt varðar þetta almannahag og framtíð fólks og atvinnulífs hér á landi. Það hefur verið reiknað út að kostnaðurinn við krónuna sé um 200 milljarðar á ári. Við getum nýtt þá 200 milljarða í ýmislegt annað og þarfara. Hingað til hefur enginn kynnt betri eða öruggari leið til að koma á stöðugleika en að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Við eigum að klára samninginn við Evrópusambandið og sjá hvort ekki fæst góð niðurstaða sem byggir undir bjarta framtíð á Íslandi. Með því að halda Íslandi utan Evrópusambandsins er ekki verið að verja kjör heimilanna í landinu. Það er ekki verið að verja kjör fyrirtækjanna í landinu og ekki stöðu ríkissjóðs. Með því að halda Íslandi utan Evrópusambandsins er verið að loka dyrum að betra efnahagsumhverfi fyrir Ísland.

Í riti Seðlabankans sem kom út haustið 2012 og fjallar um gjaldeyrismál segir að ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og tæki upp evru hefði það m.a. í för með sér að innlendir raunvextir lækki, innlendur fjármagnsstofn stækki og landsframleiðsla á mann hækki varanlega við inngöngu lítils lands eins og Íslands í stærra myntsvæði. Einnig fylgja aðild að ESB og evrusvæðinu kvaðir varðandi stefnuna í ríkisfjármálum og aðra þætti efnahagsstefnunnar sem ætlað er að sporna gegn agaleysi í hagstjórn. Við höfum búið við mikla verðbólgu og efnahagslegan óstöðugleika og agaleysi í hagstjórn, bæði fyrr og nú. Ásamt þátttöku í margvíslegu samráði um efnahagsstefnu og fjármálastöðugleika fengist með aðild að Evrópusambandinu aðgangur að björgunarsjóðum og sameiginlegu öryggisneti sem ætlað er að takast á við áföll í einstökum ríkjum. Það er augljós hagur nýsköpunar- og hugverkageirans að skipt verði um gjaldmiðil og eini raunverulegi kosturinn fyrir Ísland er evra. Nýsköpunarfyrirtæki sem hafa náð fótfestu ná ekki að blómstra í því umhverfi sem krónan skapar. Þessi fyrirtæki eru mörg mikilvæg okkur Íslendingum, skapa vel launuð störf og laða að og halda ungu og efnilegu fólki heima. Ef planið er að halda Íslandi utan Evrópusambandsins og halda áfram að nota íslenskar krónur þarf að draga það skýrt fram hvað það þýðir fyrir atvinnulífið í landinu, samsetningu þess og rekstrarumhverfi. Ekki síður þarf að rökstyðja hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu og velferðina þar sem það er mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð að halda úti krónunni, minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi.

Seinni partinn í ágúst gerði Maskína könnun fyrir Evrópuhreyfinguna um afstöðu landsmanna til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, líkt og þessi tillaga sem við ræðum hér gengur út á. Niðurstöður úr þeirri könnun eru afgerandi og mun fleiri landsmenn eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður en þeir sem eru því andvígir. Heildarniðurstaða könnunarinnar er að 57,3% segjast hlynnt 18,9%, andvíg og 23,8%, hvorki hlynnt né andvíg. Ef við skoðum einungis þau sem taka afstöðu, eru annaðhvort hlynnt eða andvíg, eru 75,2% hlynnt en 24,8% andvíg. Meiri hlutinn er afgerandi og hann fer vaxandi.

Þegar aðildarviðræðum er síðan lokið og niðurstaðan fengin í hvern málefnakafla yrði samningurinn í heild borinn undir þjóðina. Þá fyrst yrði ljóst hvernig sjávarútvegskaflinn og landbúnaðarkaflinn litu út og þeir sem mest óttast slæma niðurstöðu í þessum köflum gætu hætt spekúlera og spá um hver niðurstaðan gæti orðið því að hún lægi á borðinu. Og ég spyr, forseti: Ef hæstv. ríkisstjórn starfar ekki fyrir fólkið í landinu að þessu leyti, fyrir hvern starfar hún?