154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[19:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Ég er ekki á þeim stað að vilja ganga úr EES en ég skal viðurkenna að samningur Íslands við EES minnir mig óþægilega mikið á hjónaband tiltekins vinar míns sem staðið hefur sirka jafn lengi og þessi samningur þar sem kröfurnar hafa allar verið á einn veginn; vegið að fullveldi viðkomandi vinar. Ég myndi sjálfur ganga úr slíku hjónabandi ef frúin yrði svo frek á mig og færi að stafa svoleiðis ofan í mig skref fyrir skref hvernig bananinn sem ég legði mér til til munns mætti vera í laginu, hvernig skórnir mínir mættu vera á litinn og hvernig göngulagið skyldi vera, að ég myndi ígrunda það mjög að ganga úr slíku hjónabandi. Það er auðvitað ekki alveg fullkomlega sambærilegt við það að vera í ríkjasambandi. En sá samningur sem ég barðist fyrir með kjafti og klóm þegar ég studdi litla Alþýðuflokkinn, sáluga því miður, sá samningur sem gerður var fyrir 30 árum er allt annar samningur en við erum með í dag. Það þarf nokkuð við að bætast í þeim halla til að ég segi: Göngum úr þessu sambandi. Það er ekki komið þangað, ég vona að það komi ekki að því, því að það eru kostir, sannarlega, við að vera í EES. En sumt af því sem þá blasti við sem aðalkostur, aðalávinningur, hefur því miður smám saman fjarað út en í staðinn rignir yfir okkur tilskipunum, kröfum, ásælni og inngripum inn í okkar mál hér. Það mislíkar mér. Ég mun ekki hafast að, ég mun láta á það reyna þegar að því kemur, þegar greidd verða atkvæði með hvaða hætti það skipast og ég mun styðja og lúta þeirri niðurstöðu.