154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ragnar Sigurðsson (S):

Virðulegur forseti. Kærunefnd útboðsmála hefur ógilt ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við óstofnað einkahlutafélag um rekstur Hríseyjarferju. Ég verð að lýsa undrun minni á vinnubrögðum Vegagerðarinnar í þessu máli og skil ekki hvernig hægt er að haga útboðsmálum með þessum hætti. Skaðinn er sá að rekstur Hríseyjarferjunnar, sem er lífæð eyjunnar, er í uppnámi og hefur verið frá því um síðustu áramót þegar útboð á rekstri ferjunnar var kært. Frá þeim tíma hefur verið samið við núverandi rekstraraðila með bráðabirgðasamningi út árið. Það er mikilvægt að fá skýr svör frá stjórnvöldum um það hvernig þau hyggjast haga málum og ég geri ráð fyrir því að ráðuneytið og stofnunin hafi verið með uppteiknaðar sviðsmyndir tilbúnar gagnvart þeirri stöðu sem nú er uppi. Sambærilegt mál en þó enn alvarlegra þar sem það þolir enn minni bið, er Húsavíkurflugið. Það mun að öllu óbreyttu leggjast af nú um mánaðamótin. Íbúar Norðurþings og nágrennis hafa löngum búið við flugsamgöngur sem þeir hafa getað treyst á og skiptir miklu máli hvað varðar alla uppbyggingu og þjónustu við íbúa. Þetta er gríðarlega stórt mál og hefur engan veginn fengið nægilegt pláss í þjóðfélagsumræðunni og hér á Alþingi. Ef flug leggst af mun það gjörbreyta lífsgæðum á svæðinu enda tekur heilbrigðisþjónustan á svæðinu mið af tryggum flugsamgöngum. Jafnframt hefur þetta mikil áhrif á alla uppbyggingu og þjónustu á svæðinu.

Herra forseti. Við erum að tala um lífæðar byggðarlaga og mögulegar breytingar sem eru handan við hornið. Ég kalla eftir svörum og hvet jafnframt ráðherra til að hlutast til í málinu og upplýsa um það hver stefnan sé þannig að hægt sé að taka málefnalega umræðu um það hvernig við ætlum að haga uppbyggingu og þjónustu við íbúa í Norðurþingi og nágrenni. Tíminn er að renna út. Látum ekki flugið leggjast niður og fara svo af stað.