154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er áhugaverð þingsályktunartillaga sem hér er verið að leggja fram um breytingar á því hvernig skattlagning fer fram þegar kemur að því að greiða í lífeyrissjóð. Hér á landi hefur kerfið verið þannig, alla vega undanfarna áratugi, að skattar eru ekki teknir af þeim peningum sem fara inn í lífeyrissjóðinn, en hins vegar er nauðsynlegt að borga skatt þegar upphæðin er tekin út, þegar viðkomandi hefur náð þeim aldri að geta tekið út úr lífeyrissjóðunum. Þetta er ein leið til að byggja upp og hefur ákveðna kosti en getur líka haft ákveðna galla, t.d. ef skattar hækka. Ef skattarnir sem ég er að borga í dag eru orðnir hærri þegar ég þarf á lífeyrinum að halda þá er ég að tapa því sem ég hefði annars borgað af núna.

En það er líka hægt að hugsa sér það að vera með mismunandi kerfi í gangi. Þannig er það t.d. í Bandaríkjunum þar sem bæði er hægt að leggja fyrirskatt og eftirskatt inn í tvær mismunandi tegundir af lífeyrissjóðsreikningum. Eitt af því sem er gert við þá reikninga þar sem staðgreiðslan er gerð áður en þú leggur inn, sem sagt ekki þegar þú tekur út, er að þar er aukalega þannig að það verða engar skerðingar á öðrum réttindum þegar þú tekur þann pening út. Það er ákveðinn kostur þar sem þetta hefur þá ekki áhrif t.d. á annars konar lífeyri eða annars konar greiðslur sem viðkomandi á þá jafnvel rétt á.

Í Bandaríkjunum hefur það hins vegar verið gert þannig að það eru takmörk fyrir því hversu mikið þú mátt leggja inn á þennan reikning á hverju ári og það er alveg spurning hvort eitthvað slíkt ætti að vera hér. En ef greinargerðin með þessari þingsályktunartillögu er lesin kemur fram að verið er að benda á að það er margt sem betur mætti fara í lífeyriskerfinu hér á landi. Við eigum alltaf að vera opin fyrir því að skoða hvort við þurfum ekki að breyta þeirri aðferðafræði sem notuð hefur verið hér undanfarin 40, 50, 60 ár, hvort það eigi að endurhugsa hana, hvort það séu aðrar leiðir til að gera hlutina. Þar þurfum við að gera margt annað en bara að horfa á það hvort skattlagningin sé í upphafi eða þegar þú tekur út. Það er t.d. orðið þannig víða um heim að lífeyrissjóðir sumir hverjir, sem eru oft stórir fjárfestar í fyrirtækjum, eru farnir að vera mjög samfélagslega hugsandi. Hvað meina ég með því? Jú, þeir þrýsta á þau fyrirtæki sem þeir fjárfesta í til þess t.d. að draga úr útblæstri og sinna sinni samfélagslegu ábyrgð og sinna sínu nánasta umhverfi. Frægasta dæmið um slíkt er nú reyndar ekki frá lífeyrissjóðunum en það er mjög algengt t.d. að háskólar séu með sína eigin lífeyrissjóði fyrir þá sem kenna þar, til að ávaxta þann pening sem háskólarnir fá. Þar hefur unga fólkið, nemendurnir, verið mjög duglegt við að þrýsta á að fjárfestingarstefnu þessara sjóða sé breytt til að fjárfesta í hlutum sem eru grænir, sem tryggja framtíðina. Ég held að það sé stórt atriði sem við erum í rauninni ekki að nýta lífeyrissjóðina í í dag. Flestir lífeyrissjóðir eru því miður mjög lítið að skipta sér af neinu í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í nema einungis því að þeir fái lágmarksfjárfestinguna sína á hverju ári. Þetta er eitthvað sem við sem borgum í lífeyrissjóðina þurfum að fara að þrýsta á að okkar lífeyrissjóðir fari að taka öflugri þátt í.

Það er líka rétt sem bent er á hér að lífeyrissjóðakerfið hér hefur því miður vaxið mjög mikið. Þegar gjaldeyrishöftin voru var lífeyrissjóðunum ekki leyft að fjárfesta eins mikið erlendis og það eru ákveðin höft á erlendum fjárfestingum fyrir lífeyrissjóðina. Þetta gerir ekki bara það að verkum að lífeyrissjóðirnir eiga í rauninni of stóran hlut í íslenskum fyrirtækjum heldur líka það að áhættan með lífeyrinn sjálfan er hærri því að ef það kemur stór skellur á Íslandi þar sem þessi stóru fyrirtæki fara öll niður á við þá fer öll okkar fjárfesting niður á við.

Að lokum langaði mig að nefna það að gagnsæi á íslenskum lífeyrissjóðamarkaði er allt of lítið. Það að geta séð nákvæmlega í hverju lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta, hvar ég er að borga, hvaða gjöld, hvaða þóknanir er verið að taka hér og þar í ferlinu þegar ég er að leggja inn í minn lífeyrissjóð og hvaða laun eru fjárfestingaraðilarnir að fá — allt þetta mætti vera miklu, miklu betra. Það skýrir það kannski af hverju verið er að skera niður hvaða lífeyri fólk er að fá þrátt fyrir alla þessa stærð og þrátt fyrir allan þennan vöxt vegna þess að það er verið að taka ótrúlega mikið í þóknanir og kostnað sem við höfum ekki innsýn í af því að það eru ekki gerðar kröfur hér á landi um að allt þetta sé gagnsætt.

Þannig að ég vona að þessi þingsályktunartillaga verði til þess að þingið fari nú að skoða svolítið þetta lífeyrissjóðakerfi sem við höfum í dag með opnum hug, hvort kannski séu til aðrar lausnir, sem hægt er að gera samhliða okkar núverandi kerfi þar sem við tryggjum að fólk geti átt áhyggjulaust ævikvöld á sama tíma og gagnsæi og samfélagsleg ábyrgð er sett í fyrirrúm.