154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Áhugavert að heyra það sem hann segir um lífeyrissjóðina sem stóra fjárfesta með samfélagsleg ábyrgð, samfélagslega hugsandi. Þá kemur mér strax í hug norski olíusjóðurinn sem er mjög samfélagslega hugsandi. Það er vert að geta þess að það þykir mikill heiður þegar norski olíusjóðurinn fjárfestir í fyrirtækjum, jafnvel það mikið að þeir eru með stjórnarmann, og hins vegar mjög miður þegar þeir selja sig út úr fyrirtækjum eins og þeir hafa gert vegna þess að umhverfisstefnan er kannski ekki nægilega góð eða fyrirtækin eru í löndum þar sem er vafasöm vinnumarkaðslöggjöf og annað slíkt þar sem ekki er farið eftir stöðlum og standördum sem sjóðurinn setur sér. Það má geta þess sem mér þótt merkilegt, ég sá einu sinni breskan þátt um norska olíusjóðinn, að þeir eru með heimspeking að störfum, siðfræðing sem fer yfir það hvort fjárfesting sé siðræn eða ekki. Þeir eru a.m.k. með mjög háa standarda.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er þetta: Hvað þykir honum um þessi gríðarlegu umsvif lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi? Þeir eiga tæplega 7.000 milljarða kr. í eignir og í ár, samkvæmt hagtölum lífeyrissjóðanna sjálfra, er eignarhlutfall þeirra 180% af vergri landsframleiðslu. Það var 80% árið 2000 og nú rúmum tuttugu árum seinna er það 180%. Ég er ekki að sjá að greiðslur til lífeyrisþega hafi aukist, að lífeyrisþegar í dag hafi miklu meiri milli handanna frá lífeyrissjóðunum en fyrir 22 árum síðan. Ég vil spyrja hvort þetta fyrirkomulag sé þess eðlis að það sé ekki kominn tími til að endurskoða það í ljósi þessarar gríðarlegu stærðar, og ég tala nú ekki um stjórnarsetuna sem er ólýðræðisleg.