154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, þessi gífurlega eign lífeyrissjóðanna ætti að valda áhyggjum og sér í lagi vegna þess að það eru ákveðnar skorður settar við því í dag í hverju þeir geta fjárfest og það gerir það að verkum að t.d. lífeyrissjóðirnir eiga mjög stóra eignarhluti í stærstu fyrirtækjunum hér á landi og það getur hreinlega skapað mjög mikla áhættu. Ég held að það sé líka mikilvægt að átta sig á því að svo mikilli eign fylgir mikil ábyrgð. Sú ábyrgð felst í því að vera ekki bara aðili sem kemur með peninginn heldur líka aðili sem kemur með ákveðin gildi og ákveðna stefnu inn í stjórn þeirra fyrirtækja sem viðkomandi er að taka sæti í. Það þýðir, eins og ég nefndi hér áðan, umhverfi, samfélag og stjórnunarhættir, oft kallað ensku skammstöfuninni ESG, með leyfi forseta, Environmental, social, and governance, og það er mjög mikilvægt að við förum að hugsa um þessi atriði líka vegna þess að, eins og ég sagði, þessu fylgir hrikalega mikil ábyrgð og þeirri ábyrgð þurfa lífeyrissjóðirnir að fylgja eftir þegar kemur að samfélaginu.