154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:34]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Undanfarna mánuði höfum við í Samfylkingunni ferðast um landið og rætt við fólk um heilbrigðismál. Við höfum átt samtöl við sérfræðinga, stjórnendur heilbrigðisstofnana, almennt heilbrigðisstarfsfólk og notendur þjónustunnar, aðstandendur og bara íbúa á landinu öllu. Það sem stendur svolítið upp úr eftir þessar ferðir og þessa fundi er að fólk upplifir ákveðið öryggisleysi og ekki síst eldra fólk sem finnur og veit að þjónustu er ábótavant.

Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á að fólk geti verið sem lengst heima hjá sér, sem er vel og það er nálgun sem við í Samfylkingunni styðjum. En við getum ekki horft fram hjá því að á ákveðnum tímapunkti getur fólk bara ekki verið lengur heima hjá sér. Þá á fólk rétt á því að komast að á hjúkrunarheimili, fá hjúkrunarrými. Að láta aldraða bíða mánuðum saman eftir þessari nauðsynlegu þjónustu er óásættanlegt. Það verður að fjölga hjúkrunarrýmum, eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór hér yfir áðan, og áætlanirnar þurfa að byggjast á raunverulegri þörf, ekki einhverjum úreltum viðmiðum frá níunda áratugnum. Það sama gildir auðvitað um reksturinn.

En aftur að áherslu stjórnvalda á að fólk dvelji sem lengst heima. Forsenda þess er auðvitað öflug heimahjúkrun og heimaþjónusta ásamt félagslegum stuðningi. Að senda þau skilaboð að veikt og hrumt fólk eigi að vera heima sem lengst en veita á sama tíma ekki nauðsynlega þjónustu heim — það gengur ekki upp. Að aldraðir og aðstandendur þeirra upplifi óöryggi og ótta vegna skorts á nauðsynlegri heimaþjónustu er óásættanlegt, óásættanlegt í einu ríkasta samfélagi heims. Ísland er á fleygiferð, segir hæstv. fjármálaráðherra, Ísland best í heimi, en aldraðir einstaklingar sem bíða veikir, hræddir, óöruggir, finna fyrir óöryggi um að fá nauðsynlega þjónustu, upplifa ekki þetta Ísland sem stundum er talað um.