154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:09]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er hér fyrir hæstv. innviðaráðherra með framsögu í þessu máli, sem í heild sinni er nú ágætt mál. Það sem ég vildi hins vegar spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í eru þessi rök fyrir því að fella út heimild Vegagerðarinnar til að bjóða út rekstur vaktstöðvarinnar, heimild sem er í 3. mgr. 2. gr. laga um vaktstöð siglinga. Það vantar kannski þéttari rökstuðning í greinargerð og í framsögu fyrir því af hverju þetta er fellt út. Af hverju hefur ekki gengið að viðhafa útboð fyrir þessari þjónustu, sannarlega mikilvægu þjónustu? Það eru auðvitað ýmis rök, eins og koma fram í greinargerðinni. Þetta snýr að grunnþjónustu ríkisins um ákveðna starfsemi. En hver er ástæðan fyrir því að Vegagerðin hefur ekki ráðist í útboð eins og henni er heimilt — ég vek athygli á því: heimilt samkvæmt lögunum að ráðast í? Það kunna auðvitað að vera á tímabili einhverjar ástæður fyrir því að það er ekki hagkvæmt að fara í útboð. En þetta er heimildarákvæði og þess vegna sé ég ekki þörfina á því í fljótu bragði að þetta heimildarákvæði verði fellt úr lögunum eins og hér er verið að leggja til.