154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svarið og þakka fyrir að við erum að reyna að ná utan um kjarnann í þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. heilbrigðisráðherra í andsvari. En það er einmitt þetta, þetta er heimildarákvæði og það er skiljanlegt að löggjöfin sé að veita ákveðið svigrúm fyrir framkvæmdarvaldið, hvernig það telur best að haga þessari tilteknu þjónustu, þessari mikilvægu grunnþjónustu. Þess vegna er ég hugsi yfir því af hverju það er þörf á að þessi heimild verði felld úr lögunum. Þá er ég að vísa til þess að það er almennt ágætisbragur á því að löggjöf sé með þeim hætti að hún er almenn, hún horfir vel fram á við og tekur mið af því sem getur hugsanlega gerst. Í þessu samhengi er ég að vísa til þess að hér er auðvitað um sérhæfða og tæknilega þjónustu að ræða, það er mikill búnaður sem þessu fylgir og þetta þarf að vera vel úr garði gert. En við sjáum ekki fyrir hvaða öru breytingar geta orðið á þessu sviði sem öðrum í ljósi tæknibreytinga; innkomu gervigreindar, og hvernig aðrir aðilar, sem geta náð betri árangri með nýrri tækni, nýju verklagi, nýjum búnaði, geta jafnvel tryggt þessa þjónustu með betri hætti. Þá er ágætt að þeir tryggi að þjónustunni sé sinnt eins og best verður á kosið en um leið að það sé tryggt að fjármunir sem varið er til þessarar starfsemi séu nýttir með sem bestum hætti. Það er auðvitað markmið útboðs hverju sinni að ná þessu tvennu fram.