154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:18]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um vaktstöð siglinga. Mig langar að koma inn á eitt atriði sérstaklega sem snýr að tilkynningu skipa yfir 300 brúttótonnum að stærð um för milli hafna sem snýr að landgöngu gesta og þá aðallega af skemmtiferðaskipum. Fyrst vil ég taka það fram varðandi þau atriði sem ég tók upp við hæstv. heilbrigðisráðherra hér um heimild Vegagerðarinnar til að láta fara fram útboð á tilteknum þætti um vaktstöð siglinga, að fyrirkomulagið sem er við lýði, útvistun þessara verkefna til Landhelgisgæslunnar og slíkt, sé auðvitað á góðum stað. Athugun mín um það atriði sneri ekki að því fyrirkomulagi sem er, heldur einfaldlega að við setningu löggjafar um svona atriði sé horft aðeins fram á við og við séum viðbúin því hvað tæknibreytingar geta leitt af sér, að þau skilyrði skapist fyrir því að Vegagerðin framkvæmi útboð á þessum þjónustuþætti. En þetta er auðvitað eitthvað sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd getur rýnt betur í og kannað betur forsendur þessa gildandi ákvæðis.

Frú forseti. Það sem ég vildi gera hér að örstuttu umtalsefni er sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu um tilkynningarskyldu skipa yfir 300 brúttótonnum að stærð um för milli hafna þannig að það sé alltaf ljóst hver siglingaleið skipanna er, eins og ég skil þetta, sem tryggir auðvitað að viðbragðsaðilar hér á landi, sem bera ábyrgð á björgun og leit, séu alltaf meðvitaðir um á hvaða leið skip yfir þessari stærð eru — auðvitað er fyrst og fremst miðað við skemmtiferðaskip — og í hvaða tilgangi. Þetta snýr þá að landgöngu gesta slíkra skipa utan hafna. Ég held, svo það komi nú fram, að sú breyting sem lögð er til sé ágæt. Ég held að það sé ágætt að leggja slíka tilkynningarskyldu á skipstjóra þessara skipa. Það getur hjálpað til við að það sé öllum ljóst hvar þessi skip eru stödd hverju sinni.

Af því að það hefur verið komið hér inn á landgöngu gesta skemmtiferðaskipa í frumvarpinu þá langar mig að hreyfa við því hér að eins og ég skil þetta þá höfum við í okkar löggjöf ekki nægjanlega trygga umgjörð um þau skilyrði sem gilda um landgöngu gesta af skemmtiferðaskipi utan hafna. Það eru auðvitað reglur sem gilda um einstök svæði, friðlýst svæði hringinn í kringum landið; það geta verið tímatakmarkanir, það geta verið fjarlægðartakmarkanir og það geta verið takmarkanir sem lúta að einstökum svæðum þá innan friðlýsingar í samráði við landeigendur. Ég vil vekja athygli á þessu atriði. Þetta hefur komið hér til tals áður í þingsal og það hefur verið vakin athygli á þessu. Hér eru atriði sem snúa að umhverfisvernd, náttúruvernd, hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að skemmtiferðaskip, jafnvel með þúsundum manna, geti tekið land utan hafna, svo gott sem hvar sem er á landinu. Þau sjónarmið sem hefur verið hreyft við í umræðunni eru góðra gjalda verð. Það eru atriði sem snúa að ásókn ferðamanna, þá oft á viðkvæm svæði. Þetta eru jafnvel óbyggðir, fjarri öllum mannvirkjum, vegagerð eða einhverju slíku. Ég nefni í þessu sambandi friðlandið á Hornströndum, en líka víða annars staðar. Það hafa verið settar fram í umræðuna áskoranir sem snúa þá að vöktun þessara svæða og þess háttar.

Það sem ég vil nefna til viðbótar við alla þessa umræðu, sem ég tel vera þarfa, jafnvel atriði sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd getur tekið til skoðunar samhliða því að rýna þetta tiltekna frumvarp, eru réttindi landeiganda. Getur það verið eðlilegt að landeigandi að sjó vakni einn góðan veðurdag í blíðskaparveðri og fyrir utan netlög hans er risastórt skemmtiferðaskip með mörg þúsund farþega sem streyma í land á léttbátum inn á hans land? Þetta kann að vera fjarstæðukennt og einhverjir landeigendur hafa ekkert á móti slíku, en ég tel að við verðum að halda til haga réttindum landeigenda til að hafa eitthvað um það að segja hvernig þessum skipakomum og landgöngu er háttað utan hafna. Er ekki eðlilegt að landeigandi geti þá í fyrsta lagi meinað skipi landgöngu með þessum hætti á sína jörð? Er ekki eðlilegt að hann gæti þá mögulega krafið skemmtiferðaskipið eða rekstraraðila þeirrar ferðar um eitthvert gjald, hlutfall af því hvaða kostnað og ónæði landeigandi getur haft af slíkri óumbeðinni heimsókn? Gæti það ekki verið spurning að það sé meginregla að landeigandi geti meinað skemmtiferðaskipi landgöngu á land sitt með þessum hætti?

Hér er eflaust hægt að tefla fram annars konar rökum er snúa að almannarétti um frjálsa för almennings um jarðir, um eignarlönd. Það eru mjög góð rök. Það er gömul og gild regla í íslenskum rétti. En landganga með þeim hætti sem ég er til að mynda að lýsa hér rúmast ekki alveg innan þess almannaréttar. Sú gamla forna regla miðar að frjálsri för fólks, almennings í landinu, frá A til B og landeigandi á þeirri leið getur ekki meinað fólki frjálsri för um landið í lögmætum tilgangi. Í grunninn er þetta reglan. Hins vegar hefur inntak þessarar reglu breyst að mínu mati á undanförnum árum, áratugum, frá því að þetta var almenn og gild regla. Ríkisvaldið hefur lagt vegi, ríkisvaldið hefur byggt hafnir, ríkisvaldið hefur byggt flugvelli sem er allt til þess fallið að greiða för fólks um landið og einfalda för þess, vegi sem jafnvel hafa verið lagðir með því að taka lönd eignarnámi o.s.frv. Þetta eru auðvitað allt atriði sem að mínu mati breyta inntaki reglunnar um frjálsa för fólks um eignarlönd.

En gott og vel. Hvað þá um heimsóknir farþega á skemmtiferðaskipum, í hundruðum þúsunda talið, af sjó til að skoða tiltekin atriði í þeirri náttúru? Það getur ekki verið frjáls för sem ræður þar för. Það er eitthvað annað. Þá held ég að við verðum að horfa á regluna um frjálsa för fólks í eignarlöndum með aðeins öðrum hætti og átta okkur á því að þessi réttur getur ekki náð til svo stórs hóp sem kemur á eignarlönd með þessum tiltekna hætti, eingöngu í einhverjum útivistar- og skemmtunartilgangi. Þá hljóta þau sjónarmið sem ég var að fara yfir, um rétt landeigenda til að hafa eitthvað um það að segja hvernig þessa landgöngu ber að, að skipta máli.

Þetta er það sem ég vildi koma að. Ég vonast til þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd líti til þessara sjónarmiða. Ég horfi líka til þess að hæstv. umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra hefur boðað frumvarp um þetta efni og það er í smíðum í hans ráðuneyti og að Alþingi fái að taka það frumvarp fyrr en seinna til umfjöllunnar hér um þetta atriði. Það eru þá atriði sem snúa eðlilega fyrst og fremst að hinum almennu skilyrðum: Hvernig verndum við viðkvæma náttúru víðs vegar við strandlengju landsins og hvaða almennu umgengnisreglur ber að hafa í gildi? Þetta er auðvitað mikið út frá sjónarmiðum ferðaþjónustunnar í landinu en ég er fyrst og fremst hér til að árétta og ítreka mikilvægi þess að eignarréttindi landeigenda víðs vegar um landið verði höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu.