154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það þarf að teikna upp þjónustuna og tryggja hagsmunina hjá fötluðu fólki en ég frábið mér að umhverfis- og samgöngunefnd beri ábyrgð á því. Það er ráðuneytið sem átti að vinna þessa vinnu. Ég ætla bara að segja það hér og nú, af því að ekki reikna ég með að hæstv. ráðherra taki málið aftur upp í ráðuneyti til að láta vinna það almennilega áður en það kemur til þingsins, að ef ráðuneytið ætlar að eiga einhverja von um að fá gott veður fyrir málið í umhverfis- og samgöngunefnd þá skal það vinna þessa vinnu núna áður en þingleg meðferð hefst í nefndinni. Þá skal ráðuneytið vinna þær reglugerðir sem þarf að setja og eiga það samráð sem þarf að eiga en ekki velta þeim bolta yfir á þingið. Það er ábyrgð stjórnvalda að eiga í uppbyggilegu samtali við hagsmunasamtök fatlaðs fólks til að tryggja réttindi þess. Stjórnvöld geta ekki hunsað þá skyldu sína og sagt: Þingið reddar þessu. Það er aumingjaskapur.