154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:00]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég ætla að detta hérna í klisjupottinn, alveg frá fyrstu sekúndu með spurningunni: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Óttalega einföld spurning og svarið er jafn einfalt: Nei, það er það ekki. Kannski var það einhvern tímann en það er það ekki. Það er nefnilega þannig að mannskepnan er komin í þvílíka yfirburðastöðu á jörðinni og býr yfir þvílíkum tortímingarmætti að hún getur skotið og drepið og gert hvað sem henni sýnist við hvaða dýr sem er en er ekki endilega búin að læra að stíga til baka og hemja sig þegar hún þarf þess ekki. Einhvern tímann fyrr á árum voru hvalveiðar nauðsynlegar til að draga fram lífið og fá lýsi á lampa og hvað það er. En svo bara óx mannfólkinu ásmegin og gekk svo nærri hvalastofninum að þeir urðu nánast útdauðir víða um höf. Nú er staðan sú að nánast öll lönd í heimi eru orðin sammála um að hvali beri að vernda, ekki veiða. Ísland er eitt af fáum ríkjum sem er ósammála því og á Íslandi er ekki einu sinni það mikil sannfæring hjá almenningi fyrir því að það sé nauðsynlegt að skjóta hvali. Það er gróft á litið eitt fyrirtæki sem telur það nauðsynlegt og það nýtur ekki yfirburðastuðnings almennings.

Þetta frumvarp sem við ræðum hér í dag tekur á þessari stöðu með því í fyrsta lagi að færa hvali undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svokölluð villidýralög. Það hefur verið bent á það árum saman hversu fáránlegt það sé að allt dýraríkið á Íslandi, fyrir utan sjávarspendýr, heyri undir þau lög, vegna þess að lög um hvalveiðar eru frá árinu 1949 og uppfylla engar þær kröfur sem við gerum til lagasetningar í dag. Villidýralögin hins vegar, þótt gömul séu orðin, eru hins vegar með einhverjum meginreglum umhverfisréttarins innbyggðum og verða það enn frekar ef hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagráðherra lætur verða af því sem lofað er í þingmálaskrá vetursins, að leggja fram heildarendurskoðun á villidýralögunum, löngu tímabæra. Ef það væri eitthvert vit í þessari ríkisstjórn þá væri hluti af þeirri heildarendurskoðun að gera það sem við leggjum til með þessu frumvarpi og fella hvali undir villidýralög. Þannig tryggjum við velferð dýranna alveg óháð því hvað við ákveðum síðan með veiðar á þeim, hvort eigi að friða þá eða ekki, vegna þess að, eins og nafnið gefur til kynna, langa nafnið, þá ná villidýralögin líka yfir veiðar. Hreindýr eru felld samkvæmt ákvæðum villidýralaga, rjúpa, refir. Af hverju ekki hvalir ef fólk væri þess innstillt að vilja veiða þá?

Við sem stöndum að þessu frumvarpi viljum hins vegar ekki veiða hvali heldur viljum við, jafnframt því að færa þá undir verndarvæng villidýralaganna, gera hvalveiðar óheimilar og fella í leiðinni brott lög um hvalveiðar, hin löngu úreltu frá árinu 1949. Með þessu erum við komin á stað sem Ísland hefði í rauninni alltaf átt að vera á, vegna þess að veiðar á hvölum eiga sér ekki langa íslenska sögu. Hér voru stundaðar á Íslandsmiðum hvalveiðar á fyrri öldum af kannski aðallega af norskum hvalveiðimönnum en Íslendingar hins vegar friðuðu hvali árið 1886. Þá var þetta hús sem við stöndum hér inni í fimm ára gamalt og þá ákváðu þingmenn sem sátu hér á Alþingi þess tíma að leiða í lög miklar takmarkanir á hvalveiðum. Sú friðun var aukin 1903 og aftur 1913. Þetta er forsaga lagasetningar hér á þingi. Við erum ekki hvalveiðiþjóð, við erum hvalafriðunarþjóð. Síðan tókum við reyndar sem samfélag hliðarspor síðustu áratugi þegar í rauninni eitt fyrirtæki í grunninn allan þann tíma stundaði hvalveiðar.

Lög um hvalveiðar vou stofnuð samhliða því að Hvalur hf. varð til., að ein fjölskylda ákvað að fara að skjóta stórhveli með íslenskum bátum, nýsköpun sem betur hefði ekki orðið, á sama tíma og ofveiði hvala var orðin að gríðarlegu vandamáli þarna um miðja 20. öldina. Þá var mannkynið nálægt því að murka fullkomlega lífið úr öllum hvölum í heimi. Sem betur fer náðist alþjóðlegt átak um að snúa þessari þróun við og friðun hvala varð að veruleika á níunda áratugnum.

Síðustu mánuði höfum við séð undarlega þróun. Við höfum séð umræðu um hvalveiðar á miklu breiðari grunni en nokkru sinni áður, vil ég meina, þökk sé dýraverndunarsinnum sem hafa dregið fram hversu illa er að þessum veiðum staðið. Það var í byrjun síðasta sumars þegar Hvalur hf. hóf hvalveiðivertíðina að dýraverndunarsinnar fylgdust með hvalstöðinni í Hvalfirði, vöktuðu bátana, tóku myndir, tóku myndbönd, sýndu þetta í fréttamiðlum. Í ljós kom ýmislegt sem ekki átti að geta gerst. Það var verið að skjóta kelfdar kýr. Það var verið að skjóta blendinga og þar með drepa dýr af tegund sem er friðuð samkvæmt íslenskum lögum. Það var verið að skjóta dýrin tvisvar, þrisvar og jafnvel oftar, sem þýðir að dauðastríðið teygði sig yfir tugi mínútna, klukkutíma jafnvel.

Þetta varð til þess að hæstv. matvælaráðherra ákvað að bregðast við. Umræðan var orðin það sterk að stjórnmálin gátu ekki setið hjá lengur og matvælaráðherra setti stífari skilyrði um hvalveiðar, sem reyndar er nú varla hlæjandi að en þetta eru sömu skilyrði og var talað um að þyrfti að vera lágmarkið í svokallaðri villidýraskýrslu sem er tíu ára gömul og hugmyndin um heildarendurskoðun villidýralaga byggir á. Nýja reglugerðin sem ráðherrann setti snerist um að það yrði eftirlitsmaður í hverjum báti, það yrðu myndbandsupptökur, það yrði bara fylgst með því að hvalveiðar færu fram með þeim hætti að væri réttlætanlegt út frá mannúð, út frá dýravelferð. Hvað kom í ljós? Það var sko aldeilis ekki raunin. Eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar kom út í maí síðastliðnum og af þeim 148 hvölum sem voru veiddir í fyrra var fjórðungur skotinn oftar en einu sinni með sprengiskutli. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir fjórum sinnum. Hver skutull tekur sinn tíma þannig að þarna er búið að skjóta í dýrið sprengju aftur. Svo líður kannski korter, 20 mínútur og þá er skotið aftur. Svo líður tími og það er skotið aftur. Dauðastríð hvalanna sem var fylgst með varði í allt að tvær klukkustundir. Hvalur hf. skaut í ofanálag þrjá hvali sem náðust ekki, sluppu frá bátnum og hafa þá dáið einhvers staðar af sárum sínum, guð má vita hvenær.

Í framhaldinu fór fagráð um velferð dýra yfir skýrsluna og komst að því að þessi veiðiaðferð gæti ekki samrýmst ákvæðum laga um velferð dýra og í framhaldinu var skipaður starfshópur matvælaráðherra til að fara yfir úrbótatillögur frá Hvali hf. Á meðan þessi óvissa ríkti þá tók matvælaráðherra þá ákvörðun að fresta hvalveiðitímabilinu. Þetta var kannski áhugaverðasti tíminn í sumar vegna þess að þá allt í einu heyrðust sterkustu gagnrýnisraddirnar á ráðherra ríkisstjórnarinnar, eins og svo sem oft áður úr hennar eigin röðum, úr samstarfsflokkunum í ríkisstjórn, frá flokknum sem stundum er kallaður besti samstarfsfélagi sem fólk í Vinstri grænum hefur þekkt en var nú aldeilis ekki dús við það að matvælaráðherra leyfði dýrunum njóta vafans.

Úrbótatillögur litu dagsins ljós og þessi starfshópur skilaði hugmyndum að breyttum reglum varðandi aflífun hvala sem leiddu til strangari reglugerðar og eftir henni var farið núna þegar veiðitímabilið fór aftur af stað í byrjun september. Síðan gerðist það í síðustu viku að einn hvalveiðibáturinn var stöðvaður vegna þess að orðið hafði frávik frá nýju reglugerðinni. Hann fór síðan aftur af stað í gær vegna þess að það var búið að vinna nýjar úrbótatillögur og allur þessi ferill sýnir svo vel hvers vegna ákvörðun um framhald hvalveiða er einfaldlega ráðherra og ríkisstjórninni ofviða. Það er kominn tími til þess að Alþingi stígi inn og skeri úr um það hvort halda eigi hvalveiðum áfram við Ísland eða hvort eigi að fella það undir vernd villidýralaga.

Hérna er almenningur nokkuð skýr. Það kom könnun í vor þar sem ljóst er að 42% fólks eru á móti hvalveiðum en 29% fylgjandi og stuðningur vex með aldri, enda held ég að ég hafi aldrei hitt manneskju undir mínum aldri — við skulum nota það sem viðmiðið — sem botnar í því af hverju í ósköpunum er verið að veiða dýr með jafn ómannúðlegum hætti og raunin er í jafn miklu tilgangsleysi og raunin er, vegna þess að markaður fyrir þessar afurðir er enginn. Hver vill kaupa kvikasilfursmengað hundafóður? Ég hef aldrei borðað það.

Síðan hefur umræða síðustu misseri reyndar dýpkað dálítið skemmtilega varðandi það hversu mikilvæg dýr hvalir eru. Það var nefnilega vinsælt hjá þeim sem töluðu máli hvalveiða fyrir ekkert allt of löngum tíma að láta eins og hvalir væru hræðilegar afætur á vistkerfi sjávar, hvalir væru einhver helsti samkeppnisaðilinn við heilbrigðan sjávarútveg íslensku þjóðarinnar vegna þess að þeir væru að éta svo mikið af einhverjum smásílum og þörungum og hvað það er og þetta meinta afrán hvala var gert að réttlætingu fyrir því að fólk þyrfti að grisja aðeins úr stofninum. Þetta hafa sjávarlíffæðingar ítrekað bent á að er tóm della og undanfarið hefur skilningur á mikilvægi hvala fyrir vistkerfi sjávar orðið meiri og útbreiddari. Hvalir eru nefnilega það sem mætti kalla mikilvirkustu garðyrkjumenn sjávarins. Sjórinn er nefnilega ekki jafn hreyfanlegur og við ímyndum okkur stundum, heldur er lagskipting sjávar gríðarleg þannig að á milli laga hreyfast næringarefni ekki svo glatt. Til að hreyfa næringarefni á milli sjávarlaga þá þarf einhver að gera það. Og viti menn, hvalir gera það, éta á einu lagi, skíta því annars staðar — næringarefni komið. Með þessu dreifa þeir áburði þar sem áburðar er þörf, styðja við frumframleiðslu í sjónum og byggja þannig undir heilbrigð vistkerfi, styrkja þannig fiskistofnana sem hvalveiðisinnar fyrri tíma sökuðu þá um að vera að veikja. Með þessu eru hvalir að efla lífríkið, auka súrefnisframleiðslu, gera þannig allt andrúmsloftið betra og svo þegar þeir bera beinin, drepast og sökkva til botns sjávar þá er þar með búið að farga einhverjum 30 tonnum af kolefni, í tilfelli langreyða, sem nýtist sem næring fyrir lífríki á hafsbotninum og helst þar. Þannig að hvalir eru að styðja við lífkerfið í kringum eyjuna okkar litlu, framleiða súrefni og farga kolefni. Allt er þetta eitthvað sem við getum þakkað þeim fyrir og ættum að gera frekar en að drepa þá.

Ég var búinn að fara yfir það hvers vegna villidýrlög væru hinn eðlilegi rammi fyrir hvali og eitthvað sem við ættum öll að geta verið sammála um, sama hvað okkur finnst um hvalveiðar sem slíkar. En þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin er ekki sammála um. Á síðasta kjörtímabili háttaði svo að yfir sjávarútveginum var Sjálfstæðismaður og yfir umhverfismálunum var Vinstri grænn ráðherra. Sá Vinstri græni var sammála mér í óundirbúinni fyrirspurn um að sjávarspendýr ættu heima undir villidýralögum en Sjálfstæðismanninum fannst engin ástæða til. Fyrir vikið gerðist ekkert. Þessi málaflokkur hreyfðist ekki á milli ráðuneyta vegna þess að ráðherrarnir voru bara ósammála um grundvöllinn. Hlutverkaskipti urðu við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þá er komin Vinstri grænn ráðherra yfir sjávarútveginn og Sjálfstæðismaður í umhverfismálin en viti menn, þeirra afstaða er eftir sömu flokkspólitískum línum og áður. Umhverfisráðherrann hefur sagt að hann vilji ekkert endilega fá hvalina yfir til sín á meðan Vinstri græni ráðherrann segir að auðvitað væri hinn eðlilegi rammi villidýralögin.

Þannig að þó að matvælaráðherra væri til í að gefa hvalina frá sér, ef maður les á milli línanna, þá hljómar næstum eins og umhverfisráðherra vilji ekki taka við þeim með töngum einu sinni. Þess vegna þurfum við að stíga inn sem Alþingi. Hér getum við tekið ákvarðanir sem ganga þvert á ráðuneyti. Við þurfum ekki að festa okkur í þessum flokkspólitísku gryfjum sem eru innan ríkisstjórnarinnar. Við getum tekið ákvörðunina þvert á flokka í þágu dýranna.

Ég held ég láti hér staðar numið, frú forseti. Eins og ég segi er með þessu frumvarpi lagt til að banna hvalveiðar og færa hvali undir verndarvæng villidýralaga, vegna þess að Ísland á að vera leiðandi þegar kemur að verndun hafsins. Það er ábyrga afstaðan og það er líka sú eina rökrétta fyrir ríki sem á allt sitt undir því að sjórinn umhverfis landið sé heilnæmur og að stór og smá sjávardýr þrífist vel.

Í þágu náttúru, dýravelferðar, loftslags og hafs er nauðsynlegt að taka skrefið, stöðva hvalveiðar og vernda þessi mikilvægu og stórkostlegu dýr. Að lokinni þessari umræðu legg ég síðan til, frú forseti, að málið gangi til umhverfis- og samgöngunefndar.