154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:40]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Jón Gunnarsson verðum kannski seint sammála í þessu máli frekar en flestum öðrum. En látum það ekkert spæla okkur. Mig langar bara rétt að nefna tvö nánast tæknileg atriði. Í fyrsta lagi það sem hv. þingmaður talaði um í framsögu sinni og kallaði jafnvægi í lífríki sjávar og reif þá upp þessa gömlu delluumræðu, sem líffræðingar eru búnir að hrekja, um að það skipti einhverju máli að grisja úr hvalastofninum til að styrkja lífríki sjávar. Því er bara þveröfugt farið. Hvalir leggja miklu meira til lífríkisins og vistkerfa sjávar en þeir taka frá þeim. Þannig að besta leiðin til að styrkja vistkerfin er að leyfa hvölunum að vera sem flestir.

Síðan má ég til með, forseti, vegna þess að hv. þingmaður nefndi hér samanburðinn við hreindýr í svari sínu áðan. Hann er nefnilega dálítið góður, vegna þess að hreindýr falla undir svona sæmilega nútímaleg lög, villidýralögin, meðan hvalir falla undir þessi gjörsamlega dragúldnu lög frá 1949 sem gilda um hvalveiðar. Hreindýr eru meira að segja með dálítið langan kafla í villidýralögum þar sem er m.a. kveðið á um að til að mega skjóta hreindýr þurfi að standast alveg sérstakt námskeið og að þú megir ekki fara upp á fjöll nema í fylgd leiðsögumanns sem þarf að standast annað sérstakt námskeið. Það þarf að vera þannig að leiðsögumaðurinn liggur við hliðina á þér þegar þú hleypir af til að hann geti fellt dýrið samstundis ef þú nærð bara að særa það, vegna þess að dýravelferð snýst um það að takmarka dauðastríðið í þeim tilvikum þar sem er ákveðið að drepa dýr. Lögin utan um dráp á hreindýrum eru þannig sniðin, þannig úr garði gerð að dauði hvers dýrs á að taka sekúndur, sekúndubrot, ekki einhverjar klukkustundir eins og getur gerst í hvalveiðum.