154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek hér til máls sem meðflutningsmaður um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum og þakka fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leggja þetta frumvarp fram hér á hinu háa Alþingi. Flutningsmenn þessa frumvarps koma úr þingflokkum Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Auðvitað hefði verið við hæfi ef einhverjir úr þingflokkum stjórnarflokkanna hefðu treyst sér til að vera með á þessu frumvarpi af því að ég held að það hefði kannski getað endurspeglað betur umræðuna, bæði í stjórnmálunum, stjórnmálaflokkunum og í samfélaginu. En þannig er þetta.

Flokkurinn minn, Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands, tók af öll tvímæli um afstöðu sína til hvalveiða á landsfundi sínum haustið 2022. Þar lýsir Samfylkingin því yfir að það eigi að hætta hvalveiðum við strendur Íslands og bendir m.a. á þau góðu umhverfisáhrif sem hvalirnir hafa, t.d. í baráttunni við hamfarahlýnun. Við skulum halda því til haga í þessari umræðu.

Ég ætla nú ekki að fara að gera uppbyggingu eða efnistök þessa frumvarps að sérstöku umræðuefni og ég verð að viðurkenna að það tóku sig upp gömul leiðindi við að hlýða á viðbrögð hv. þm. Jóns Gunnarssonar við þessu ágæta frumvarpi vegna þess að ég hefði haldið að reynslumikið fólk í stjórnmálum væri komið á þann stað að það gæti kannski talað með uppbyggilegum hætti um það efni sem er á dagskrá þó svo að viðkomandi sé ósammála því. Það er auðvitað bara allt önnur saga en látum það nú vera.

Það þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð um nauðsyn þessa frumvarps og nauðsyn þess að við sem samfélag og þjóð bindum enda á þessa starfsemi eins fyrirtækis sem byggir á grunni lagasetningar frá árinu 1949. Eins og hv. fyrsti flutningsmaður benti á í sinni ræðu er saga hvalveiða við Íslandsstrendur í rauninni saga friðunar síðustu rúmlega 100 ár. Við vitum öll, og það þarf svo sem ekki að tíunda það úr þessum ræðustól, að það voru erlendar þjóðir, erlendir veiðimenn sem stunduðu hvalveiðar við Íslandsstrendur, og reyndar líka hákarlaveiðar að einhverju leyti, öldum saman, fluttu tæknina hingað á meðan Íslendingar höfðu hana ekki en nutu auðvitað að einhverju leyti auðvitað góðs af henni. Það var með þeim árangri að í Norðurhöfum, og reyndar í Suðurhöfum líka, gengum við næstum því af stórhvelastofninum dauðum í lok 19. aldar og á 20. öldinni. Það að stöðva hvalveiðar er því ekki ný hugmynd. Hún er hvorki róttæk né ný, ef maður má bara orða það þannig, en hún er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg af þeim ástæðum sem raktar eru í þessu frumvarpi.

Ég, hafandi kynnt mér þessa sögu ágætlega, bæði efnahagsleg áhrif hvalveiða og starfsemi hins ágæta fyrirtækis Hvals hf. í gegnum áratugina, sé engin rök sem hníga að því að við eigum að leyfa áfram stórhvelaveiðarnar. Það er þannig, og við vitum það öll, að reglugerðin sem gefin var út árið 2019 af þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra rennur út núna um áramótin og við vitum öll að málið liggur þannig að það hlýtur allt að benda til þess að hún verði ekki endurnýjuð. Það hlýtur allt að benda til þess að hún verði ekki endurnýjuð. Hvaða áhrif það hefur síðan á stjórnarsamstarfið skulum við bara leyfa okkur að bíða og sjá.

Ég hef velt mjög svo fyrir mér dýravelferðarsjónarmiðum í þessu sambandi og ég held að þó svo að veiðimenn séu að beita því sem kalla má bestu þekktu aðferðir, sem eru notkun sprengiskutlna, og að verið sé að íhuga að nota líka rafskaut, sem sagt bæði sprengingu og rafskaut, þá er ekkert í þessum aðferðum sem sannfærir mig um að hægt sé að minnka með þeim þjáningu skepnanna. Rafskautin munu ekki gera það. Það er bara mjög mikilvægt að við horfumst í augu við að stórhvelaveiðar geta ekki með þessum hætti uppfyllt kröfur um dýravelferð. Þær hreinlega geta það ekki.

Ég ætla nú ekki að eyða mörgum orðum á hugrenningar um vanhæfi sérfræðinga eða þeirra sem hafa leyft sér að tjá sig um hvalveiðar, t.d. út frá siðfræðilegu sjónarhorni. Mér finnst það ekki uppbyggilegt í þessari umræðu. Mér finnst að það ætti að vera þingmönnum frekar sæmandi að taka mark á sérfræðingum, jafnvel þeim sem þeir telja hugsanlega vera á andstæðri skoðun, og að leggja það á vogarskálarnar þegar við metum hvort við viljum halda þessum veiðum áfram. Ákvörðunin er að sjálfsögðu stjórnvalda, þingsins, verði þetta frumvarp samþykkt og komist það í gegnum afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar. En gerist það ekki þá ætla ég að veðja á að veiðunum verði hætt um næstu áramót.