154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði orð á því að í þessu máli ætti fyrst og fremst að hlusta á sérfræðingana, vísindamenn og aðra þá sem um þetta fjalla. Ég tek undir það. Allar okkar veiðar og nýting á hvaða auðlind sem er á að byggjast á yfirvegaðri úttekt og skoðun. Í þessu tilfelli kemur þar auðvitað til hvernig nýta á þessa stofna, hversu mikið má taka úr þeim. Þetta byggist allt saman á mjög viðamiklu vísindastarfi til áratuga á norðurslóðum í samvinnu milli okkar og Norðmanna og fleiri þjóða þar sem talningarverkefni eru í gangi og hafa verið um áratugaskeið. Síðan fjallar vísindaráð Alþjóðahvalveiðiráðsins — sem er, eins og ég kom inn á áðan, mjög fjölmennt ráð, ég held að ég fari með rétt að það séu á annað hundrað vísindamenn sem sitja í þessu ráði og fara ítarlega yfir öll gögn, allar forsendur, allar upplýsingar áður en þeir veita ráðgjöf um hversu mikið má veiða úr stofninum. Þetta er allt í samræmi við það og samkvæmt reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það á líka við um þessa nýju tækni sem rafmagnsstuðið byggir á. Eins og ég sagði hér áðan þá er það viðurkennt af þessu sama vísindaráði og af Alþjóðahvalveiðiráðinu sem aflífunaraðferð sem er jöfn sprengiskutlum. Fyrirtækið hefur verið að þróa þessa aðferð, gera á henni alls konar prófanir sem lofa mjög góðu en því var bannað að nýta þá reynslu og þekkingu við þessar veiðar. Skipstjórar skipsins og aðrir sem þekkja vel til um borð (Forseti hringir.) þar sem þessi hvalur særðist, drapst ekki við fyrsta skot um daginn, telja það nánast öruggt (Forseti hringir.) að hann hefði drepist ef rafstuðið hefði líka fengið að fylgja eins og upphaflega var lagt upp með.

Nú ætla ég að spyrja hv. þingmann: Hvaðan hefur hún upplýsingar um að það hafi engin áhrif, muni ekkert laga stöðuna? (Forseti hringir.) Frá hvaða vísindamönnum kemur það?