154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:00]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um það sem hv. þingmaður segir um að hér sé aðferð sem sé viðurkennd af Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég efast ekki um þær upplýsingar. En hvað hefur verið reynt? Það hefur verið reynt að nýta þessa aðferð á hrefnur, skilst mér, sem eru u.þ.b. tíu sinnum minni en stórhvelin, langreyðurin t.d., og það er ekkert sem mælir með þessari aðferð. Það er ekkert sem segir okkur og það er engin leið fyrir hv. þm. Jón Gunnarsson að standa hér uppi í pontu og halda því fram að það að nota bæði sprengjuskutul og rafskautin, eins og mér skilst að þetta sé, að þar með séum við komin með hina mannúðlegu aflífunaraðferð. Það er ekki þannig. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig. Þetta eru veiðar á villtum dýrum og þingmaðurinn sjálfur sagði hér í ræðu sinni áðan og viðurkenndi það, og auðvitað vita það allir, að þegar við veiðum villt dýr þjást þau. Það hitta ekki allir í fyrsta sinn. Því var ágætlega lýst hvernig því er fyrir komið þegar verið er að skjóta hreindýr, hvernig við reynum að koma því þannig fyrir að dýrin þjáist sem minnst.

Við getum ekki horft fram hjá dýravelferðinni í þessu stóra máli. Það má ekki. Það er ekki hægt að afgreiða það sem einhverja smámuni sem munu síðan verða leystir með rafskautum, sem væntanleg eru jafn hittin og sprengiskutlarnir, og að þar með sé málið leyst. Það er ekki þannig. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig og ég — er ég ekki með orðið, frú forseti?

(Forseti (ÁLÞ): Jú, þú ert með orðið.)

Það er ekki þannig en það er kannski ágætt að vita það að hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur engar áhyggjur af dýravelferðinni.