154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:22]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og sömuleiðis þakka ég fyrir upplýsingarnar. Mér finnst það mjög stór og áhugaverður þáttur í þessu frumvarpi sem við fjöllum hér um hversu mikilvægir hvalirnir eru vistkerfi sjávar. Það væri mjög æskilegt að við myndum rannsaka það og fá frekari gögn til okkar hvað það varðar. Það verður örugglega mjög áhugavert að fara yfir það.

Ég ætla aðeins að staldra við atvinnufrelsið. Það á alveg það sama við um réttinn til að halda skepnur og hvort þú veiðir þær, þú þarft að halda þér innan ákveðins ramma. Atvinnufrelsi byggist á því. Þetta er ekki bara villta vestrið, langt því frá. Þess vegna erum við með ákveðnar reglur, hvort sem það eru reglur um búfjárhald eða veiðar á villtum spendýrum, sem okkur ber að fara eftir. Mér finnst þetta mál snúast fyrst og fremst um það. Það er búið að benda ágætlega á það í ræðum og sömuleiðis í riti að það er hægt að hafa ágætisávinning af því að nýta afurðir af hvölum. En það ber allt að sama brunni þegar við fjöllum um atvinnufrelsi, þú þarft alltaf að halda þér innan þess ramma sem löggjafinn setur. Ef þú ferð út fyrir rammann, hvort sem þú ert bóndi, hvalfangari eða hvað sem er þá færðu áminningu og ef menn geta ekki bætt sig eru þeir reknir af vellinum. Svo einfalt er það nú bara og það er ekkert öðruvísi í þessu heldur en í einhverjum öðrum atvinnurekstri.