154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:26]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir sitt andsvar. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég tel í þessu samhengi að miðað við þau gögn sem liggja fyrir núna og fleiri gögn sem munu sömuleiðis koma til með að liggja fyrir í lok þessarar vertíðar, þá eigum við að geta byggt á ákveðnum rökum um það hvort hægt sé að framkvæma hlutina eða ekki. Í huga mínum er málið bara tiltölulega mjög einfalt. Það snýst bara um einn þátt, að aflífa skepnuna á sem mannúðlegastan hátt, ef við getum orðað það þannig. En við þurfum samt alltaf að hafa í huga að það verða alltaf frávik við veiðar á villtum dýrum. Það verða sömuleiðis frávik þegar við erum að taka líf í sláturhúsum landsins þó að við séum með bestu aðstæður og svoleiðis. Það verður aldrei hægt að gera þetta, frú forseti, á þann hátt að ekki geti eitthvað farið úrskeiðis, nákvæmlega eins og kom fyrir núna síðast á Hval 8 þegar krókur slóst í spil og allt sat fast.

Já er svarið, hv. þingmaður. Ég tel að við getum í framhaldinu tekið nokkuð upplýsta ákvörðun og við getum líka horft til þess að setja okkur mjög skýrar reglur í því hvernig þessu verður framfylgt, þ.e. ef við ætlum að halda áfram að veiða hval. Það á þingið síðan eftir að fara í gegnum ásamt ráðherra.