154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:31]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er væntanlega þannig að það er ekki til neinn ákveðinn mælikvarði á það hvað dauðastríð tekur langan tíma. Við sem t.d. höfum unnið við slátrun á búfé vitum að þegar rotað er með rafmagni og síðan skorið á hálsæðarnar þá tekur það einhverja stund, en rotið á sér stað. Í sjálfu sér drepst það ekki við rafmagnið heldur rotast bara fyrst og fremst og síðan er andinn tekinn frá því. Ég held að það séu ekki til neinar rannsóknir sem geta farið inn í hugarheim viðkomandi skepnu, ef við getum orðað það þannig, um hvort hún er lífs eða liðin. Ég held að það sé bara ekki hægt og það er útilokað mál. Það verður alltaf ákveðinn mælikvarði sem við setjum okkur og sættum okkur við hversu langan tíma það má taka þangað til við teljum að skepna sé dauð. Heilt yfir er það nú þannig, sem betur fer, að skepnan rotast við höggið, hvort sem hún er skotin í hjartað eða í höfuðið og síðan fjarar þetta út. Þannig gengur þetta fyrir sig þegar menn eru að taka líf. En það er ekki til nein sérstök rannsókn sem segir til um það hvenær lífið hverfur og ég held að við verðum alltaf að horfast í augu við það. Því verða viðmiðin alltaf sett af okkur sjálfum í þessu samhengi og við þurfum að setja okkur viðmið. Ég tel það mjög nauðsynlegt og það er vel framkvæmanlegt vegna þess að við getum alltaf gert betur í öllu sem við erum að gera. Við erum ekki á þeim stað að geta ekki gert betur og það á við í þessu tilfelli sem öðrum.