154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:33]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég er alfarið andvígur því frumvarpi sem hér er til umræðu og er það af ýmsum ástæðum. Ég ætla að reyna að draga fram helstu atriði sem ég tel að vegi hvað þyngst í þeirri umræðu allri.

Nú er það svo að ég var gagnrýninn á stjórnsýsluframkvæmd hæstv. matvælaráðherra í sumar við reglugerðarsetningu sem frestaði upphafi veiðitímabilsins. Kjarninn í þeirri gagnrýni minni sneri að því að það gæti ekki verið lögum samkvæmt á valdi ráðherra að taka slíka ákvörðun eins og var gert með þeirri reglugerð. Lögin, stjórnarskráin, einfaldlega heimila ekki slíkt. Ég sagði líka að ef umræðan snerist hins vegar um það hvort banna ætti hvalveiðar þá væri það a.m.k. ekki á valdi ráðherra. Slíkt yrði þá að koma hingað og vera tekið fyrir á Alþingi. Nú erum við með þetta frumvarp sem miðar nákvæmlega að því að banna hvalveiðar en þá vil ég koma inn á það að stjórnskipun landsins er með þeim hætti að Alþingi getur hreinlega ekki gert hvað sem er. Alþingi getur ekki sett lög um hvað sem er. Af hverju ekki? Jú, í gildi í landinu er stjórnarskrá og það er stjórnarskrá lýðveldisins sem er æðri lögum Alþingis. Hvað er það í stjórnarskránni sem ég er þá að vísa sérstaklega til? Jú, frú forseti, ég er að vísa til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Hún hljóðar svo:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Enda krefjast almannahagsmunir þess. Þetta er kjarni málsins, eða eitt, tvö og þrjú, eins og hv. þingmenn hafa verið að koma inn á í umræðum um þetta mál. Þetta er lykilatriði. Við skulum þá aðeins reifa stuttlega hvað það er í þessu frumvarpi þar sem reynt er að færa rök fyrir því að almannahagsmunir krefjist þess að hvalveiðar verði bannaðar. Hvaða rök eru það í þessu frumvarpi sem sýna fram á að áskilnaður stjórnarskrárinnar sé uppfylltur? Svarið við því, frú forseti, er nokkuð einfalt: Það er ekki neitt. Það er ekki neitt í þessu frumvarpi þar sem gerð er minnsta tilraun til þess að láta a.m.k.líta út fyrir að frumvarp þetta, verði það að lögum, muni standast stjórnarskrá. Svarið við þessu er einfaldlega það að löggjöf eins og boðuð er í þessu frumvarpi mun ekki standast stjórnarskrá.

Í frumvarpinu eru talin upp rök fyrir því af hverju eigi að banna hvalveiðar og þetta eru alls konar rök. Sum standast reyndar bara engan veginn, önnur er hægt að deila um og má togast á um skilning. Það má taka fyrir og ræða hver sé hinn vísindalegi grundvöllur ýmissa fullyrðinga sem settar eru fram. Það er sjálfsagt mál. Sú umræða verður svo sem ekki leidd til lykta hér í sal Alþingis í þessari umræðu. Eftir stendur við lestur þessa frumvarps: Það er ekki með nokkrum hætti hægt að segja að bann eins og er boðað í þessu frumvarpi muni standast stjórnarskrá, ekki með nokkrum hætti. Þá þegar af þeirri ástæðu er þetta frumvarp auðvitað algerlega ótækt hér inni á Alþingi.

Við getum farið aðeins með þetta lengra. Hvað væru þá almannahagsmunir? Jú, það er alveg rétt að ýmissi athafnastarfssemi má setja skorður, enda krefjist almannahagsmunir þess. Það er eins með hvalveiðarnar og alla aðra starfsemi, Alþingi hefur rétt og getur sett slíkri starfsemi almennar skorður. Það getur verið að vegna stofnvistfræðilegra upplýsinga sé hvalur í útrýmingarhættu. Ég myndi telja að það væri farið að vera alla vega einhver vísir að alvörurökræðu um almannahagsmuni og væri málefnalegur rökstuðningur fyrir því að banna ætti hvalveiðar, eins og við erum að stýra fiskveiðiauðlindinni okkar. Auðvitað er það svo þegar kemur að hvalveiðum að það eru sett lög um hvalveiðar. Það eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla og það er einfaldlega þannig að ef einstaklingur er brotlegur við þau skilyrði þá er alla jafna sú málsmeðferð í okkar réttarfari að hann getur í versta falli átt hættu á því að missa leyfið, að hann verði sviptur leyfi. En það er ekki bann við starfseminni um alla tíð. Það er ekki bann ef einhver brýtur umferðarlög. Hann getur verið sviptur leyfinu en það bannar ekkert öðrum að aka um. Þetta er kannski langsótt samlíking en þetta er atriði sem við getum ekki horft fram hjá.

Það að segja að veiðarnar sem slíkar séu andstæðar lögum um velferð dýra — það hefur bara hvergi komið fram nema hjá áliti fagráðs sem telur það vera andstætt lögum. Eftirlitsstofnunin sjálf, Matvælastofnun, sem fer lögum samkvæmt með það lögbundna hlutverk að hafa eftirlit með veiðunum, telur þetta ekki vera brot á lögum. Það hefur ekki verið höfðað neitt mál á hendur umræddu fyrirtæki. Það er ekkert stjórnsýslumál í sumar sem var tekið upp. Veiðarnar eru einfaldlega ekki andstæðar lögum um velferð dýra. Og ef það er einhver ágreiningur um það, þá er það, samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins, hlutverk dómstóla að skera úr um þann ágreining. Svo einfalt er það.

Það eru nokkur önnur atriði sem vert er að koma inn á og rétt er að draga fram í þessari umræðu. Í frumvarpinu er til að mynda fullyrt að efnahagur og viðskiptasambönd séu í húfi. Þetta er einfaldlega rangt, frú forseti. Ég get vísað til skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skrifaði árið 2019 um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Í niðurstöðum þeirrar skýrslu segir, með leyfi frú forseta:

„Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf.“

Þetta er skýrsla frá 2019. Þurfa menn fleiri skýrslur? Er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ekki nægilega góð stofnun? Þurfum við að finna einhverja aðra, eins og einhvern sérfræðing frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, til að skrifa einhverja svona skýrslu?

Það er fleira athyglisvert í niðurstöðum Hagfræðistofnunar um hvalveiðar. Það segir líka í niðurstöðunum, með leyfi frú forseta:

„Miðað við varfærið mat á stofnstærðum og áti hvala, éta hvalir við Ísland 7,6 milljónir tonna af fiski, smokkfiski og krabbadýrum. […] Afar líklegt er að afránið hafi áhrif á fiskistofna við Ísland. Áhrifin má bæði rekja til áts hvala á fiski og samkeppni hvala og fisks um fæðu.“

Það er bara einfaldlega þannig, frú forseti, að það er í besta falli uppi ágreiningur í fræðasamfélaginu um allar þær fullyrðingar sem eru settar fram í þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega meira. Það má tína ýmislegt til og kannski gefst mér tækifæri til þess í einhverjum andsvörum sem hér hafa verið boðuð.

Það sem ég vil aðallega draga fram, og víkja þá aftur að því sem öllu máli skiptir, er áskilnaður stjórnarskrárinnar um að ekki sé hægt að takmarka atvinnufrelsi nema með lögum. Áskilnaðurinn er: enda krefjist almannahagsmunir þess. Þá skulum við skoða í hverju almannahagsmunir geta falist í þessu máli. Í mínum huga er það alveg ljóst. Það eru gríðarlega miklir almannahagsmunir fyrir allan almenning, fyrir íslenska þjóð, að við berum gæfu til þess að nýta náttúruauðlindir okkar með skynsamlegum og ábyrgum hætti. Við eigum allt undir því sem velferðarþjóðfélag, sem eitt ríkasta land í heimi, að við umgöngumst náttúruauðlindir okkar af skynsemi og ábyrgð og að við nýtum þær til þess að auka hér hagsæld. Þetta gildir um allar náttúruauðlindir. Stærst og veigamest er auðvitað fiskveiðiauðlindin okkar þar sem við höfum þetta grundvallaratriði að leiðarljósi, orkunýtinguna okkar. Og þetta á líka við um hvalveiðar. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda í hafinu við strendur landsins þar sem fylgt er vísindalegri ráðgjöf um veiðar úr stofninum sem ógna ekki tilvist stofnsins, það er lykilatriði.

Hér eru hv. þingmenn að velta fyrir sér í háheimspekilegum pælingum tilvist einstaka lífvera, skepna. Það kann vel að vera til einhvers að vera að ræða það en aðalatriðið er að það sem við leggjum til grundvallar er stofninn, áhrif á stofnstærðina. Það eru þessi atriði, að um sé að ræða veiðar á vísindalegum grunni, lögum samkvæmt, í takt við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist, þar sem hvalveiðar uppfylla öll þau meginskilyrði til að teljast vera skynsamleg nýting á náttúruauðlindum og í því felast gríðarlegir almannahagsmunir fyrir íslenska þjóð að við hvikum ekki frá — gríðarlega miklir almannahagsmunir.