154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:46]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sína ágætu yfirferð. Ég vil nú samt byrja á því að geta þess að í þessum umræðum öllum saman gleymist alltaf að geta fyrri hluta í fréttatilkynningu Matvælastofnunar frá því í maí síðastliðnum, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„MAST telur að aflífun á hluta stórhvela við veiðar á Íslandi hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.“

Ég skil þetta bara eftir hér. Hins vegar, af því að hv. þingmaður kom inn á það að hér værum við í háheimspekilegum umræðum og samræðum þá langar mig að spyrja, í ljósi þess sem hv. þingmaður var að segja um almannahagsmunina og 75. gr. stjórnarskrárinnar, mig langar að velta upp mjög heimspekilegri spurningu til hv. þingmanns: Er dýravelferð almannahagsmunir? Og ef ekki, af hverju ekki, hv. þingmaður?