154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:51]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta seinna andsvar. Ég fagna því mjög að við séum að ræða hér 75. gr. stjórnarskrárinnar. Hún er lykilatriði í þessari umræðu allri. Þegar verið er að setja skorður þá er gerður þeim mun meiri áskilnaður um að það sé í þágu almannahagsmuna eftir því hversu íþyngjandi þær skorður eru. Léttvægar skorður kalla á mat, hvort það sé réttlætanlegt, á almenn sjónarmið. Það getur vel verið og það eru skorður við athafnafrelsi í okkar löggjöf sem byggja einmitt, með rökstuðningi, á dýravelferð. Eftir því sem skorðurnar verða meiri og meira íþyngjandi — og við erum að tala um algjört bann — þá er það alveg ljóst í mínum huga að þú verður að horfa til einhvers meira en eingöngu almannahagsmuna, út frá almennum sjónarmiðum um dýravelferð. Þá er einfaldlega réttur einstaklingsins til atvinnufrelsis ríkari. Hann er ríkari. Það má segja að ef það er einhver vafi uppi í þessu máli þá er hann að stjórnarskráin skal njóta vafans.