154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[15:07]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Þegar ég var barn óttaðist ég fátt meira en sjóinn. Sjórinn er eitthvað svo djúpur og dularfullur. Ég fékk martraðir um sjóinn og þær furðuverur sem búa þar, þessa undraveröld sem er svo ótrúlega dulúðleg. Í þessum töfraheimi sjávar eru hvalirnir mikilvægur hluti en þekking á lífríki og vistkerfi sjávar var lengi vel takmörkuð og ég sem krakki vissi ekki alveg nákvæmlega hvað var ofan í þessu vatni, þessu djúpa vatni, þessu dimma vatni, en sem betur fer eru komnar fleiri upplýsingar og við vitum meira. Vegna þess að það var ekki mikið vitað var hægt að þagga niður í þeim sem vildu stöðva hvalveiðar því að þekkingin var sú að kannski hefðu stórhveli bara mjög neikvæð áhrif á fiskstofna í kringum landið. En nú vitum við að það er ekki svo og hvalir gegna mjög mikilvægu hlutverki í fæðukeðju hafsins og eru gríðarlega mikilvægur hluti af vistkerfi sjávar. Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar þar sem þeir binda kolefni og framleiða súrefni.

Hvalveiðar eru í rauninni ekki íslenskur menningararfur. Í raun eru Íslendingar frumkvöðlar í friðun hvala á heimsvísu. Það tel ég vera mjög merkilega staðreynd. Íslendingar eru í dag væntanlega betur þekktir á heimsvísu sem þjóðin sem drepur hvali frekar en þjóðin sem verndar þá. Við viljum gera hvalveiðar óheimilar og heiðra þannig rætur þjóðarinnar. Við erum jú þjóð sem friðar hvali og það er sú arfleifð og það er það sem við viljum standa fyrir, alla vega flest okkar.

Hvalveiðar samræmast ekki lögum um velferð dýra. Lengi hefur verið vitað að dauðastríð hvala er of langt og því hafa komið hér mótmælendur alls staðar að úr heiminum til að mótmæla og gera enn. Fjórðungur hvala er skotinn oftar en einu sinni með sprengiskutli. Stundum hafa þetta verið allt að tvær klukkustundir sem hvalirnir heyja dauðastríð. Þessi veiðiaðferð var ekki samþykkt vegna þess að hún samræmist ekki lögum um velferð dýra. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að þessi tími sem er dauðastríð hvala er ótrúlega langur og það er ekki hægt að samþykkja það. Við getum ekki samþykkt að þetta sé að gerast hérna hjá Íslendingum, að við séum í þessari vegferð og við höldum áfram. Við getum ekki — og þess vegna erum við komin í dag til að berjast á móti þessu sem ætti að vera nóg, bara það að við vitum að þetta gæti tekið allt að tvær klukkustundir, bara það ætti að vera nóg. Það er ekki nóg en vonandi verður það nóg.

Þó að talsmenn hvalveiða séu sannfærðir um að samfélagið sé með þeim í liði þá sýna skoðanakannanir að meiri hluti almennings er á móti hvalveiðum. Í nýlegri könnun kom í ljós að stuðningur landsmanna við hvalveiðar er af mjög skornum skammti. Um 51% fólks er mótfallið hvalveiðum en þá eru 29% hlynnt þeim. Efnahagur og viðskiptasambönd eru einnig í húfi. Það er ekki mjög efnahagslega mikilvægt fyrir Íslendinga að veiða hval heldur þvert á móti ógn við efnahag og viðskiptasambönd okkar. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það er fólk sem hefur atvinnu og í sig og á af þessum atvinnugeira en þar sem við getum ekki tryggt velferð dýra þá hlýtur það að vera það sem við erum með í forgrunni þegar við hugsum um dýraveiðar. Veiðarnar hafa áhrif á ferðaþjónustu í landinu og geta fælt þúsundir ferðamanna frá, þúsundir ferðamanna sem heimsækja þá ekki landið okkar.

Það eru kannski leiðinleg rök en það er bara sannleikurinn að það eru leikarar og umsvifamiklir kvikmyndaframleiðendur sem hafa hótað að sniðganga Ísland og það getur haft áhrif á kvikmyndaverkefni til landsins. Það er bara staðreynd. Við vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur en hér er alls konar iðnaður og atvinnugreinar þannig að við þurfum að horfa á alla aðila málsins þó að okkur eigi að vera sama um Hollywood. Hvalaskoðunarfyrirtæki skila nefnilega enn meiri verðmætum í þjóðarbúið en hvalveiðarnar sjálfar.

Ísland á að vera leiðandi fyrirmynd þegar kemur að verndun hafsvæða og dýrategunda í hafinu. Íslendingar ættu að vita allra þjóða best hve mikilvægt vistkerfi sjávar er, bæði fyrir umhverfið og íslenskt efnahagslíf.

Forseti. Ætli við séum ekki sammála um það í þessum sal að við viljum vera leiðandi á þessu sviði, verandi eyja, þar sem sjórinn skiptir okkur mjög miklu máli? Hvers vegna þurfum við að veiða hvali, forseti? Eða þurfum við að veiða hvali? Nei, við þurfum það ekki. Það er ekki nauðsynlegt eða þarft fyrir íslenskan efnahag. Landsmenn eru flestir á móti hvalveiðum. Alþingi þarf nú að stíga inn og skera úr um hvort það eigi að halda hvalveiðum áfram á Íslandi eða þá fella hvali undir villidýralögin.

Forseti. Ég vil enda þessa ræðu á því að vitna í frumvarpið sem hér um ræðir:

„Í þágu náttúru, dýravelferðar, loftslags og hafs er nauðsynlegt að taka skrefið, stöðva hvalveiðar og vernda þessi mikilvægu og stórkostlegu dýr.“

Ég styð það að hvalveiðar verði bannaðar og að hvalir verði færðir undir lög um villidýr.