154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[15:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að hafa þetta ekki of langt í þetta skiptið. Mig langar aðeins að víkja aftur að því sem ég fagna mjög í umræðunni hér, sem er nýfundinn áhugi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á stjórnarskránni og mannréttindum. Í ljósi þess hversu oft þeir benda á hana, og þar allra síst 75. gr. stjórnarskrárinnar, í þessari umræðu langar mig bara svona persónulega til að hvetja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja mál okkar Pírata sem við höfum lagt fram um að sett verði á fót nefnd, svokölluð Lögrétta, sem þingmenn geti vísað frumvörpum til, til að fá yfirferð um það hvort lög standist stjórnarskrá áður en þau fari frá Alþingi, vegna þess að staðan í dag er sú að það mat fer ekki fram fyrr en eftir á, þ.e. þegar einhver einstaklingur telur brotið á sér og þá getur hann farið fyrir dómstóla.

Mér hefur verið tíðrætt um þetta vegna þess að það hefur ekki farið mikið fyrir þessum nýfundna áhuga hv. þm. Sjálfstæðisflokksins í öðrum málum sem við höfum rætt hér þegar kemur að vernd réttinda fólks á flótta, persónuvernd venjulegs fólks, almennra borgara og annað slíkt. Ég hvet hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja mig í því máli þannig að við getum tryggt að öll löggjöf sem fer hér í gegn standist stjórnarskrá. Sjálf hef ég ekki miklar áhyggjur af akkúrat þessu frumvarpi þar sem við skerum okkur úr á heimsvísu með því að stunda hvalveiðar. Þær eru bannaðar víða um heim, víðast hvar. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að það teljist vera stjórnarskrárbrot eða brot á mannréttindum að setja þá takmörkun á atvinnufrelsið.

Þá langaði mig bara að lokum að benda hv. þingmönnum á mikilvægi þess að við samþykkjum þessi lög. Hæstv. matvælaráðherra hefur verið að stíga ákveðin skref í þá átt að, hvað á að segja, takmarka eða vonandi útrýma þessari fáránlegu starfsemi. En ég held að atvik síðustu vikna hafi alveg sýnt að hæstv. ráðherra, af hvaða ástæðum sem það er, ræður ekki við verkið, hvort sem það er af einhverjum lögfræðilegum ástæðum, pólitískum ástæðum eða öðrum. Fyrir liggur að ekki náðist samkomulag um þetta efni við myndun þessarar ríkisstjórnar þannig að ég get alveg séð hvaða pólitísku dilemmu hæstv. ráðherra er í varðandi það að banna þetta með öllu og alfarið. Hins vegar þykist ég vita að hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs séu sammála efni þessa frumvarps.

Við erum Alþingi Íslendinga hér. Þetta er Alþingi Íslendinga, ekki ríkisstjórn. Ég hvet hv. þingmenn til að taka afstöðu gagnvart þessu máli á grundvelli sannfæringar sinnar. Það er kominn tími á að Alþingi taki af skarið og afnemi þessa skömm lands og þjóðar sem hvalveiðar eru. Það er alveg ljóst að það borgar sig ekki hafa það í höndum ráðherra ríkisstjórnarinnar að leyfa og banna hvalveiðar til skiptis. Ég held að kominn sé tími, þótt fyrr hefði verið, til þess að þjóðkjörið Alþingi Íslendinga taki þessa ákvörðun í þágu íslensku þjóðarinnar.