154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[15:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram í tengslum við framlagningu þessa máls sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson er fyrsti flutningsmaður að, um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum. Hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kemur nú að líkindum ekki á óvart að ég deili ekki skoðun hans á þessu máli og meðflytjendum hans á málinu sem eru allnokkrir og koma nú nokkur nöfn þarna á óvart. Það verður áhugavert að sjá með hvaða hætti þessu máli vindur fram í meðförum þingsins.

Kannski við byrjum á að draga upp stóru myndina í málinu og atburði sumarsins, ef svo má segja, sem ég gef mér að séu tilefni þess frumvarps sem hér liggur fyrir. Eins og allir þekkja tók hæstv. matvælaráðherra, skömmu eftir að þing var sent heim með hraði í annarri viku júní, þá ákvörðun að innleiða tímabundið bann við hvalveiðum á grundvelli þess sem strax kom á daginn og blasti við að voru mjög illa grundaðar stjórnvaldsákvarðanir. Rannsóknarskyldu var ekki sinnt og ótal margt mætti telja upp sem ég ætla ekki að nefna hér um þessar ákvarðanir Svandísar Svavarsdóttur. En af því að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir nefndi hér áðan nýtilkominn áhuga sumra þingmanna á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og atvinnufrelsi þá er það þannig að a.m.k. sá sem hér stendur nálgast slík mál ekki af neinni léttúð. Það er algjört frumskilyrði að þeir sem njóta þeirrar stöðu að vera ráðherrar í málaflokkum þar sem atvinnuréttindi eru undir nálgist slík mál af varfærni og af virðingu. Því fer mjög fjarri að mínu mati að sú nálgun hafi verið viðhöfð í framgöngu matvælaráðherra í þessu máli.

Það er komið inn á það í nokkrum atriðum í greinargerð frumvarpsins hver rökin eru fyrir þessu, eins og segir hér, með leyfi forseta: „Ýmis rök má færa gegn hvalveiðum. Hér verða eftirfarandi sjónarmið reifuð:“ og þau síðan talin upp. Ég ætla að fara skref fyrir skref í gegnum hvert efnisatriði sem þarna er tilgreint eins og þau horfa við mér, en hér segir fyrst, með leyfi forseta: „Hvalveiðar eru andstæðar lögum um velferð dýra.“

Virðulegur forseti. Þetta stenst auðvitað enga skoðun, að hvalveiðar séu andstæðar lögum um velferð dýra. Þá væri ekki verið að stunda hvalveiðar og þá hefðu þær ekki verið stundaðar um langa hríð þannig að þetta sjónarmið sem þarna er reifað í löngu máli fellur í raun um sjálft sig. Ég lít svo á að það sé ekki efnislegt atriði í raun í þessari umræðu að hvalveiðar eins og þær séu stundaðar í dag séu andstæðar lögum um velferð dýra. Þá væru þær ekki viðhafðar. Það er búið að taka afstöðu til þessa sjónarmiðs.

Næst kemur hér millifyrirsögn sem segir: „Meiri hluti almennings er á móti hvalveiðum.“ Ja, þegar þetta er kannað þegar lætin eru sem mest þá hnikast þetta auðvitað að einhverju marki til. En staðreyndin er auðvitað sú að það er margþætt starfsemi sem stunduð er sem nýtur ekki meirihlutastuðnings landsmanna. Ég gæti t.d. séð fyrir mér að rúmlega 50% landsmanna myndu leggjast gegn því, fengju þeir einhverju um það ráðið, að Miðflokkurinn sæti hér á þingi. Sama mætti segja um þingflokk Pírata, þannig að það geta ekki verið rök í málinu að tilviljunarkenndar skoðanakannanir ráði einhverju í þessum efnum. Sjáum bara könnun sem var gerð nýlega — því nú sé ég að það er hér virðulegur upptökumaður sem tekur upp þessar ræður sem hér eru í gangi, mér sýnist hann vera sá sami og tók upp sjónarspilið þegar erlendu stúlkurnar komu sér fyrir í tunnunum í hvalsskipunum um daginn — þegar könnuð var afstaða landsmanna til þessarar uppákomu þá kom í ljós að mikill meiri hluti landsmanna er andsnúinn slíkum skrípaleik. Ef við ætlum að lesa eitthvað inn í þá könnun er afstaða landsmanna miklu jákvæðari til þeirrar starfsemi og þess að fólk og fyrirtæki fái að stunda þá atvinnu sem þau hafa lagt fyrir sig heldur en skín í gegn í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ef við viljum ræða um hlutfall stuðnings við hvalveiðar þá blasir við, ef eitthvað er að marka orð þingmanna, að það er meirihlutastuðningur hér inni á þingi við það að hvalveiðar séu stundaðar hér við land. Ég veit ekki betur en að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu þeirrar skoðunar. Ég veit ekki betur en að allir þingmenn Framsóknarflokksins séu þeirrar skoðunar. Ég veit ekki betur en að allir þingmenn Miðflokksins séu þeirrar skoðunar og þarna strax í þessum þremur flokkum eru komnir 32 þingmenn sem er meiri hluti á þingi. Og mér segir svo hugur að í einhverjum hinna þingflokkanna séu þingmenn sem styðja við þessa starfsemi þannig að hér á þingi er klár meiri hluti við það að hvalveiðar verði viðhafðar áfram.

Hér er síðan næsta millifyrirsögnin í þessum kafla sem snýr að rökstuðningi gegn hvalveiðum og þar segir, með leyfi forseta: „Hvalveiðar eru ekki íslenskur menningararfur.“ Ég verð nú bara að játa það að þessi hluti greinargerðarinnar kom mér verulega á óvart. Ef hvalveiðar eru ekki íslenskur menningararfur þá er orðið býsna þröngt um þá skilgreiningu, bæði það sem snýr að hvalveiðunum sjálfum, þjálfun skipstjórnarmanna á fyrri stigum í tengslum við þá starfsemi og annað slíkt. Ég held að það sé orðið býsna langsótt að halda því fram að hvalveiðar séu ekki hluti af íslenskum menningararfi.

Næst komum við að þeim rökum sem tilgreind eru í greinargerð frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta: „Efnahagur og viðskiptasambönd eru í húfi.“ Í hvaða samhengi er það ekki? Ég hafði nú ósköp litlar áhyggjur af því, þó að sumir gengju af göflunum yfir því, að bandarískur leikari sem hafði aldrei komið til landsins, ætlaði aldrei að koma aftur til landsins. Það eru eflaust margir sem það á við um. Við verðum að komast á þann stað að við séum ekki sýknt og heilagt að etja atvinnugreinum hverjum gegn annarri. Það er dálítið það sem gerist í þessari uppstillingu, ef svo má segja.

Við sáum að þeir sem starfa við framleiðslu myndefnis, kvikmyndagerð og tengda þætti töldu mikla ógn stafa að sínu starfsöryggi með því að hér yrði auðlind hafsins nýtt með sjálfbærum hætti áfram eins og gert hefur verið á fyrri stigum. Þetta er dálítið eins og þegar harmakvein heyrast frá sumum fulltrúum ferðaþjónustunnar af sama meiði. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé raunveruleg áhætta og þá er það eitthvað sem jafnast út yfir lengri tíma. Ef Leonardo DiCaprio sem aldrei hefur komið til Íslands kemur aldrei aftur til Íslands þá verður bara að hafa það. Ég hef ekki orðið var við það að sá ágæti leikari neiti því að leika í kvikmyndum sem teknar eru upp í Bandaríkjunum en Bandaríkin stunda hvalveiðar af miklum móð.

Þannig að það er líka inni í þessu að einhverju marki svona, ja, hvað er hægt að kalla það, „bullying“, einhver tuddamennska, ég kveiki ekki alveg á góðu orði fyrir þetta. Það er verið að ráðast til atlögu við okkur hér á Íslandi væntanlega í því trausti að hér verði menn litlir í sér og lyppist niður þegar á sama tíma er því sem snýr að veiðum Norðmanna á hvölum bara dustað í burtu. Forsætisráðherrann hinn norski mætir og segir þessum ágætu aðilum sem harðast ganga fram að þeir viti bara ekkert um hlutina. Japanir nenna ekki einu sinni að ávarpa þessa umræðu og staðreyndin er auðvitað sú að þó að á einhverjum tímapunkti hafi verið hiti í þessari umræðu í Bandaríkjunum þá er hann miklu minni í dag heldur en áður var. Við eigum ekkert að vera lítil í okkur gagnvart þessari umræðu og svo ég ítreki það sem snýr að því að við eigum ekki að etja atvinnugreinum saman að óþörfu þá er líka staðan sú að ef við horfum t.d. til kvikmyndaiðnaðarins hefur býsna margt verið gert til að styðja við þróun og uppbyggingu þess iðnaðar á Íslandi á undanförnum árum. Menn mega ekki gleyma því að einhvers staðar frá þarf sá grunnur að koma sem við nýtum til að styðja við nýjar atvinnugreinar og sá grunnur verður auðvitað ekki lagður nema með verðmætasköpun. Við megum ekki leyfa okkur að detta í það far að líta á verðmætasköpun samfélagsins sem sjálfgefna. Það að nýta auðlind með sjálfbærum hætti er auðvitað bara partur af því.

Hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir kom inn á það í ræðu sinni hér áðan að Ísland og við Íslendingar værum þjóð sem verndaði hvali. En Ísland er fyrst og fremst þjóð sem gengur vel um sjávarauðlindir sínar. Það er lykilatriði. Þess vegna er okkur að takast að búa til svona mikil verðmæti úr þeim verðmætum sem synda hér í námunda við landið. Það er af því að við göngum vel um auðlindirnar, nýtum þær af virðingu og skynsemi og partur af því er að nýta þessa auðlind sem hvalveiðarnar eru með sama sjálfbæra og skynsamlega hætti og við nýtum annað sjávarfang, aðrar sjávarauðlindir. Þetta er það sem ég vildi segja um rökstuðninginn í þeim kafla sem varðar efnahag og viðskiptasambönd lands og fyrirtækja.

Næst er kafli í röksemdafærslunni sem ber yfirskriftina, með leyfi forseta: „Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar.“ Ég sé að tími minn er svo nærri því að renna út að ég ætla að fá að andæfa þessum kafla greinargerðarinnar síðar. Ég veit ekki hvort ég geri það í ræðu hér eða mögulega við 2. umræðu eða eftir atvikum í blaðagrein, en ég held að þarna sé verið að ofmeta verulega möguleg áhrif hvað þetta varðar og að raunveruleikinn sé allt annar heldur en þarna er lagt upp með.

Síðan er röksemdakafli sem snýr að því að villidýralög séu hinn almenni eðlilegi lagarammi um þessar veiðar. Það hefur verið tekin afstaða til þessa á fyrri stigum og lagaramminn er eins og hann er og það er ekkert sem bendir til þess að ástæða sé til að gera einhverjar sérstakar breytingar þar á þannig að sú röksemd hefur nú sinn gang.

Síðan er svona rúsínan í pylsuendanum hvað þessa runu rökstuðnings með frumvarpi hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar varðar, sem eru sex efnisatriði, en það er undir yfirskriftinni, með leyfi forseta: „Ísland á að vera leiðandi fyrirmynd í verndun hafsins.“

Frú forseti. Við erum það. Það er akkúrat það sem við erum hér á Íslandi. Þess vegna hefur okkur gengið svona vel í þeim verkefnum sem snúa að nýtingu auðlinda hafsins, það er af því að við erum leiðandi fyrirmynd í verndun hafsins. Mér er það til efs, bara svo dæmi sé tekið, að aðrar atvinnugreinar, svo ég tengi þetta nú aðeins inn í loftslagsmálin af því að þau eru tengd inn í þarsíðasta röksemdapunkt frumvarpsins, eða aðrir aðilar í íslensku atvinnulífi, önnur atvinnugrein, hafi náð betri árangri í loftslagsmálum heldur en sjávarútvegurinn. Við erum algerlega í fararbroddi og við erum fyrirmynd um allan heim hvað það varðar að vernda hafið, vernda þá stofna sem þar eru nýttir og eftir atvikum ekki. Mér er til efs að nein þjóð standi okkur framar í þeim efnum.

Hér við þetta tækifæri vildi ég fara í gegnum þessar röksemdir og rök sem má færa gegn hvalveiðum eins og þau eru sett fram í þessu frumvarpi og ég leyfi mér í meginatriðum að mótmæla þeim öllum. Ég hlakka til þess að eiga þetta samtal í hv. atvinnuveganefnd væntanlega. Er ekki rétt að málinu verði vísað þangað? (AIJ: Það er deilt um það.) Það er deilt um það, en alla vega í þeirri nefnd sem tekur málið fyrir. Ég er svo heppinn að ég á tiltölulega auðvelt með að hnika mér á milli nefnda af ákveðnum ástæðum. Mér finnst þetta ekki gott mál og ég treysti á að það dagi uppi en minni bara á það sem ég kom inn á hér áðan að það er þingmeirihluti fyrir hvalveiðum á Íslandi. Það mun koma verulega á óvart ef talning leiðir í ljós að svo sé ekki.