154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

grænir hvatar fyrir bændur.

43. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um græna hvata í landbúnaði, græna hvata fyrir bændur. Hugmyndin að baki þessari tillögu er einfaldlega sú að hæstv. matvælaráðherra verði falið að skoða bætt tækifæri bænda til að græða viðkvæm og illa farin vistkerfi, m.a. með skógrækt og endurheimt votlendis. Til þess verði skipaður starfshópur með fulltrúum bænda, Lands og skógar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Meginverkefnið verði að leggja til hvatakerfi og mælanleg markmið fyrir hvert ár. Það verði Matvælastofnun sem fái að annast eftirlit með framkvæmd þannig að tryggt verði að fjármagn sem varið verði til þessara aðgerða nýtist á sem bestan hátt. Ráðherra geri svo Alþingi grein fyrir framgangi og niðurstöðum þessa verks á haustþingi 2024.

Tillagan lýtur að því að greina tækifæri bænda og tækifæri í landbúnaðinum til að græða viðkvæm vistkerfi, m.a. með skógrækt og endurheimt votlendis. Þetta verði gert með hvatakerfi og þannig geti farið saman tækifæri og hagsmunir landbúnaðarins og markmið þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Frú forseti. Við eigum svör við skriflegri fyrirspurn minni til hæstv. matvælaráðherra um endurheimt votlendis á ríkisjörðum. Þessar tölur bera sannarlega með sér að hér megi gera betur. Þessa fyrirspurn lagði ég fram til að fá upp mynd af því hver staða mála væri um ríkisjarðir og bera svörin mjög greinilega með sér að hér þarf að gera betur. En í þingsályktunartillögunni er verið að leggja til að þessi starfshópur fái það verkefni að leita að leiðum til að skapa hvata fyrir bændur til að auka uppgræðslu, draga úr kjötframleiðslu og annarri framleiðslu dýraafurða. Ég hef áður lagt fram þessa tillögu. Þá var hún ekki afgreidd og ég legg hana nú fram í þriðja sinn.

Frú forseti. Landbúnaður er mikilvægur hluti af sögu íslensku þjóðarinnar og ég vil leyfa mér að segja að vegna sögunnar er landbúnaðurinn ekki bara mikilvæg atvinnugrein heldur menningarlegt mál, hluti af því að vera Íslendingur er samband okkar við þessa grein. Við eigum í þessu samhengi núna að vera markviss um það að skapa hvata þannig að framleiðsla á lambakjöti gangi t.d. ekki um of á landið. Hér er sannarlega ekki verið að horfa á sauðfjárrækt sem nokkuð annað en mikilvæga atvinnugrein sem við berum sterkar taugar til sem þjóð, heldur er frekar verið að leita og benda á tækifærin til að tvinna saman hagsmuni landbúnaðarins við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Pólitísku rökin að baki eru þau að það liggur fyrir að það þarf að draga úr losun heimsins á gróðurhúsalofttegundum um helming næsta áratuginn til að fyrirbyggja að hnattræn hlýnun verði umfram 1,5°C miðað við hitastig fyrir tíma iðnbyltingarinnar. Þetta er gríðarlega mikil og stór áskorun og krefst þess að við göngum til verka. Við erum auðvitað ekki ein í þessu verkefni en við erum heldur ekki undanskilin verkefninu.

Öll ríki heimsins standa núna frammi fyrir því að það þarf að grípa til stórtækra aðgerða til að ná fram þessum markmiðum. Eitt stærsta skrefið sem Ísland gæti tekið til að draga markvisst og hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda er einmitt að endurheimta votlendi og stöðva losun frá illa förnu landi. Ég er þeirrar skoðunar með grænar aðgerðir almennt séð að það eigi að umbuna þeim sem taka þessi skref. Hugmyndafræðin að baki er enda hvernig megi skapa jákvæða hvata og ávinning fyrir þessa grein að horfa í frekari mæli í þessar áttir.

Eins og ég nefndi hér áðan felst það í tillögunni að ráðherra skipi starfshóp sem hafi það markmið að auðvelda bændum þetta og gera þeim aðgengilegt, ekki síst fjárhagslega, að gera íslenskan landbúnað umhverfisvænni þannig að bændur njóti góðs af því að leggja þessum málstað lið í störfum sínum. Með því myndu bændur taka að sér stærra hlutverk við endurheimt vistkerfa með því að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. Samfélagslegi ávinningur þessa blasir auðvitað við og við vitum hver stefna ríkisstjórnarflokkanna þriggja er í þessum efnum. En hér ættu líka að geta verið falin ákveðin tækifæri til nýsköpunar.

Varðandi stöðu þess anga málsins sem lýtur að loftslagsmálum og markmiði stjórnvalda þar um er áætlað að nettólosun landsins nemi 14 milljónum tonna af koldíoxíðígildum á hverju ári og sérfræðingar telja að það megi bæta 4 milljónum tonna við vegna losunar frá illa förnu landi. Þetta eru því nokkuð stórar tölur.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er nánar farið yfir og rakið hver veruleikinn er í þeim efnum en áætlað er að um 10–15% framræsts votlendis séu í notkun í landbúnaði sem þýðir að hægt er með endurheimtinni að draga úr losun sem nemur um 6,6 milljónum tonna án þess að það hafi áhrif á ræktun í landbúnaði. Að mati okkar flutningsmanna, sem koma úr þingflokkum Viðreisnar og Samfylkingar, þá gæti reynst þýðingarmikið fyrir dreifðar byggðir að veita sauðfjárbændum sérstaklega tækifæri til að gerast vistbændur og skapa þannig alvörutækifæri á frekari grænum störfum í þessari grein. Í því ætti að felast um leið mikilvægur ávinningur fyrir samfélagið allt með meira vatni og lífi í ám og lækjum og færri sárum og skurðum í landslaginu.

Um stefnu Viðreisnar hvað varðar landbúnaðinn almennt séð þá höfum við sett það á oddinn í gegnum árin að styðja við bændur og ég er sjálf þeirrar skoðunar að beingreiðslur, beinar fjárhagslegar greiðslur, geti verið skynsamleg leið til þess að styðja við og efla greinina. Í staðinn mætti skoða innflutningskvótana og jafnvel að fella þá niður. Með því ætti hagur beggja að vænkast, bænda og neytenda. Við höfum stutt tillögur og stefnu stjórnvalda um þá styrki sem eru fyrir hendi í dag og tölum ekki í því árferði sem nú er fyrir auknum útgjöldum fyrr en að undangengnu samtali um nýjar hugmyndir og sóknarfæri fyrir greinina. Í því sambandi vil ég nefna að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024–2028 er skýr um að það eru ekki frekari útgjöld í kortunum. Markmiðið núna hlýtur því að vera að verja stöðuna og finna leiðir til að sækja fram. Ríkisstjórnin sjálf virðist því ekki gera ráð fyrir auknum heildarútgjöldum til greinarinnar.

Mig langaði til að nefna að árið 2020 var samþykkt þingsályktun Viðreisnar um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt og send til ríkisstjórnar til vinnslu. Þessi tillaga fól í sér að endurskoða ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt með það að markmiði að landnýtingarþáttur hennar myndi samræmast lögum og góðum stjórnsýsluháttum og að greiðslur myndu renna til framleiðenda sem væru að græða land.

Markmiðið með þeirri tillögu sem ég er hér að mæla fyrir í dag er kannski í stuttu og kjörnuðu máli að hér fara að mínu mati saman skýrt skilgreind markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem og jákvæð tækifæri fyrir landsbyggðirnar með hvötum í átt að enn fjölbreyttari störfum á sviði landbúnaðar.