154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

Efling Samkeppniseftirlitsins.

[13:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað eðli málsins samkvæmt nákvæmlega það sem gerist ef Samkeppniseftirlitið er sameinað við aðra stofnun, það er lagt niður í núverandi mynd. Hæstv. ráðherra fullvissar þá sem hér stendur um að það verði staðið vel að samkeppniseftirliti hér eftir sem hingað til en ég hlýt að spyrja hvernig á því standi að ekkert hafi verið gert til að styrkja Samkeppniseftirlitið í öll þessi ár sem það hefur verið til. Eins og staðan er núna hafa stöðugildi í þessari stofnun í raun ekkert breyst frá því að hún hóf störf fyrir næstum því 20 árum síðan en í millitíðinni hefur umfang þess sem Samkeppniseftirlitið á að hafa eftirlit með margfaldast.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekki hefur verið aukið við stöðugildi Samkeppniseftirlitsins í allan þennan tíma þrátt fyrir gríðarlegan vöxt í viðskiptalífinu og þörf fyrir að fylgjast vel með? Sömuleiðis hvort ekki komi til greina að rukka fyrirtækin sem sæta þurfa eftirliti fyrir eftirlitið til að styrkja megi þessa stofnun.