154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:31]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024 til og með 2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Vönduð stefnumótun er forsenda framfara. Víðtækt samráð er grundvallarþáttur í að skapa og tryggja slíka framtíðarsýn. Því fleiri sem leggjast á árarnar því fleiri taka þátt í að stuðla að framförum og bættum lífsskilyrðum í þessu góða landi okkar. Markmið ríkisins með stefnu og aðgerðaáætlun í málefnum sveitarfélaga er að gera sveitarfélögin í landinu betur í stakk búin til að sinna lögbundnum skyldum sínum, takast á við aukna ábyrgð og áskoranir til framtíðar.

Með tvískiptri stjórnskipan ríkis og sveitarfélaga er stuðlað að valdreifingu hins opinbera. Þannig er fulltrúum íbúa í sveitarstjórnum falið að aðlaga búsetuskilyrði og nærþjónustu að þörfum íbúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Tvö stjórnsýslustig kalla óneitanlega á þétt samstarf ríkis og sveitarfélaga um stefnu hins opinbera. Með ákvæði sveitarstjórnarlaga um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga er stuðlað að samræmdri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga. Ákvæðið felur í sér að ráðherra sveitarstjórnarmála leggi fram tillögu um stefnu í málaflokki sveitarfélaga til 15 ára í senn og samhangandi aðgerðaáætlun til fimm ára í senn á minnst þriggja ára fresti.

Fyrsta stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun var samþykkt á Alþingi árið 2020. Þungi hennar fólst í því markmiði ríkisvaldsins að í engu sveitarfélagi byggju færri en 1.000 íbúar. Með því er í senn stuðlað að því að gera sveitarfélögunum betur kleift að sinna lögbundnum skyldum sínum, efla þau hvert og eitt og þar með sveitarstjórnarstigið í heild sinni.

Tvær aðgerðir innan gildandi aðgerðaáætlunar styðja við markmið ríkisvaldsins um 1.000 íbúa lágmarkið. Önnur aðgerðin felst í lagabreytingu þess efnis að sveitarstjórnum sveitarfélaga með undir 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningar árið 2022, þ.e. síðustu kosningar, og síðan 1.000 íbúa við sveitarstjórnarkosningar árið 2026, þ.e. næstu sveitarstjórnarkosningar, beri að hefja formlegar sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög eða skila áliti til ráðuneytisins um stöðu og getu sveitarfélagsins til þess að sinna lögbundnum verkefnum sínum innan árs frá kosningum.

Ráðuneytið fylgdi lagabreytingunni eftir með því að senda tíu sveitarstjórnum sveitarfélaga með undir 250 íbúa rafrænan spurningaramma um álit sveitarfélaganna fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Innsend álit sveitarfélaganna renna stoðum undir grun ráðuneytisins um að oft eigi þessi sveitarfélög í erfiðleikum með að sinna sjálf lögbundnum skyldum sínum gagnvart íbúum í viðkomandi sveitarfélagi. Algengt er að þau semji við önnur fjölmennari sveitarfélög um veitingu þjónustunnar. Enda þótt samvinna sé vissulega af hinu góða og eigi almennt séð rétt á sér fylgir sá böggull oft skammrifi að fámenn sveitarfélög framselja með þessum hætti áhrif sín á mótun þjónustunnar og ábyrgð þeirra á henni gagnvart íbúunum getur orðið óskýr.

Umsagnir ráðuneytisins um álit sveitarfélaganna voru send sveitarfélögunum í gær. Í kjölfarið verður hvort tveggja kynnt fyrir íbúum, þ.e. álit sveitarstjórnanna og umsagnir ráðuneytisins, ásamt því að efnt verður til tveggja umræðna um hugsanlegar sameiningar í viðkomandi sveitarstjórn. Ef ekki er tekin ákvörðun um sameiningarferli geta minnst 10% íbúa farið fram á kosningu um ákvörðun sveitarstjórnarinnar. Þannig stuðlum við að því að íbúar þessara sveitarfélaga taki upplýsta ákvörðun um afstöðu sína til sameininga. Hin aðgerð gildandi aðgerðaáætlunar fólst í því að settar voru reglur um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga þann 1. júlí 2020. Alls er gert ráð fyrir 3,3 milljarða stuðningi á grundvelli reglnanna vegna skuldajöfnunar, byggðaframlags og fasts framlags í tengslum við nýsamþykktar sameiningar til ársins 2028.

Enda þótt formlegra áhrifa þessara aðgerða sé ekki farið að gæta er ljóst að stefnumörkun ríkisvaldsins ýtti undir sameiningar nokkurra fámennra sveitarfélaga á fyrri hluta síðasta árs. Óhætt er að segja að fyrsta stefna og aðgerðaáætlun á málefnasviði sveitarfélaganna hafi markað nokkur tímamót í þróun sveitarstjórnarstigsins fyrir þremur árum. Nú er henni fylgt eftir með tillögu til þingsályktunar um aðra stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaganna fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Í stefnumótuninni eru dregnir saman meginþættir langtímastefnumörkunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga og stuðlað að samræmi í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt eru sett fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði. Stefna og aðgerðaáætlun í sveitarstjórnarmálum byggir á markmiðum sveitarstjórnarlaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Stefnumótunin tekur mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila um stöðu og þróun sveitarstjórnarmála og áætlunum ráðuneytisins á sviði samgangna, skipulags-, húsnæðis- og byggðamála. Grunnur samhæfingar þessara áætlana felst í sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum áætlananna. Þá vinna þær saman í gegnum samhæfðar aðgerðir og áherslur með viðmið um búsetufrelsi að leiðarljósi.

Sjaldan eða aldrei hefur farið fram jafn víðtækt samráð um stefnumótun við sveitarstjórnir, íbúa og aðra hagsmunaaðila eins og við endurskoðun sveitarstjórnaráætlunarinnar. Fyrst ber að nefna að 35 sveitarfélög með sirka 87% íbúa í landinu á bakvið sig svöruðu ítarlegum spurningarlista á sviði skipulags-, húsnæðis- og sveitarstjórnarmála um mitt ár 2022. Með sama hætti skráðu sig yfir 360 manns á rafrænar vinnustofur undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman síðasta haust. Síðast en ekki síst fólst samráðið í viðhorfskönnun meðal 400 ungmenna á aldrinum 16 til 20 ára til málaflokka ráðuneytisins í byrjun þessa árs.

Ótalið er hefðbundið opið samráð í gegnum samráðsgátt stjórnvalda um grænbók og drög að stefnuskjali í hvítbók. Í umsögnum um báðar skýrslurnar tókust á gagnrýnið viðhorf fulltrúa nokkurra fámennra sveitarfélaga gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og sjónarmið fulltrúa atvinnulífs og samtaka fatlað fólks um að ganga þurfi lengra í sameiningu sveitarfélaga.

Eins og lög gera ráð fyrir skipaði ég starfshóp til að draga stefnu og aðgerðaáætlun út úr grænbókarskýrslu um stöðu og valkosti á sveitarstjórnarstiginu síðastliðið haust. Starfshópurinn undir forystu Stefáns Vagns Stefánssonar, alþingismanns, tók verkefnið föstum tökum því að aðeins fáum mánuðum síðar lá fyrir vönduð stefnumótun eftir gott samstarf fulltrúa beggja stjórnsýslustiga.

Mig langar til að nota tækifærið til að þakka þessum vaska fjögurra manna hópi fyrir þeirra metnaðarfulla framlag. Sérstakir þakkir fær Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir mikilsvert framlag þess til þessarar vegferðar. Síðast og alls ekki síst vil ég svo þakka öllum þátttakendum í samráðinu fyrir dýrmætt framlag þeirra til stefnumótunarinnar.

Markmið stefnunnar eru skýr. Annars vegar að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Hins vegar að sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt ásamt því að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaáætlun með 18 tölusettum aðgerðum til að vinna að þessum markmiðum.

Helstu nýjungar nýrrar aðgerðaáætlunar felast annars vegar í áherslu á sjálfbærni og umhverfis- og loftslagsmál og hins vegar í útvíkkun aðgerðaáætlunarinnar inn á fagsvið annarra ráðuneyta í þágu ungra barna, fólks með fötlun og innflytjenda. Í samræmi við vilja samráðsaðila og í þéttu samstarfi við viðkomandi ráðuneyti geymir nýja aðgerðaáætlunin aðgerðir á sviði málaflokks fatlaðs fólks, barna og innflytjenda.

Aðgerðir á sviði fjármála fela margar hverjar í sér framhald af aðgerðum innan fyrri aðgerðaáætlunar. Fyrst ber að nefna vinnu við áframhaldandi greiningu nýrra og eldri tekjustofna sveitarfélaga til að stuðla að fjárhagslegri sjálfbærni þeirra til framtíðar.

Því miður varð ágreiningur milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga til þess að fyrri tekjustofnanefndin skilað ekki sameiginlegri niðurstöðu. Engu að síður liggur eftir nefndina ítarleg kortlagning á fjármálum sveitarfélaga og verður unnið á grundvelli hennar að framtíðarstefnumörkun.

Haldið verður áfram vinnu við endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga. Ólík sjónarmið ríkis og sveitarfélaga mættust í vinnu fyrri nefndar um endurskoðunina. Fulltrúar ríkisins töldu mikilvægt að setja skýrar fjármálareglur, tilgreina frekari viðmið um einstaka ákvæði laganna og þróa áfram tiltekna fjármálalega mælikvarða með faglegum hætti. Fulltrúar sveitarfélaganna vildu að þeim væri treyst til að setja sér ígrundaða stefnu og fylgja skynsamlegri fjármálastjórn innan nánast óbreyttra fjármálareglna. Nýjum hópi innan nýrrar aðgerðaáætlunar verður falið að leiða saman þessi ólíku sjónarmið og verður niðurstaðan nýtt við endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Framhaldsaðgerð á sviði fjármála felur í sér að lokið verði við endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Brýn þörf er á endurskoðun regluverks sjóðsins því að mikil breyting hefur orðið á verkefnum hans með flutningi viðamikilla verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Markmið breytinganna er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins. Síðast en ekki síst felur ný fjármálaaðgerð í sér að tryggður verði farvegur faglegs kostnaðarmats frumvarpa þegar líkur eru á að kostnaður falli á sveitarfélög.

Ný aðgerðaáætlun felur í sér viðamikla endurskoðun á gildandi sveitarstjórnarlögum og metnaðarfullar aðgerðir á sviði þjónustu. Fyrsta aðgerðin á sviði þjónustu felst í því að skilgreina hvaða þjónustu sveitarfélögin þurfi að veita til að uppfylla lágmarksrétt íbúa til þjónustu. Eins og við vitum ber sveitarfélögunum að sinna hátt í 80 lögbundnum verkefnum á sviði þjónustu og annarrar starfsemi. Því miður er því alls ekki þannig farið að öll sveitarfélög hafi burði til þess að sinna þessum verkefnum. Þess vegna þótti starfshópnum þörf á því að skilgreina betur þennan rétt. Önnur aðgerð á sviði þjónustu kallast á við verkefni byggðaáætlunar um skilgreiningu á grunnþjónustu og felst í því að þegar búið verði að skilgreina grunnþjónustu verði þjónustan mæld og stuðlað að framþróun hennar.

Þriðja og síðasta aðgerðin á sviði almennrar þjónustu felur í sér markvissari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fyrri hlutinn fjallar um greiningu á ábyrgðarskiptingu og hugsanlega tilfærslu verkefna á milli stjórnsýslustiga. Seinni hlutinn felst í því að afmá svokölluð grá svæði í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, þ.e. að tryggja að íbúar verði ekki fyrir þjónustuskerðingu eða jafnvel þjónustufalli þegar þjónustu af hendi annars stjórnsýslustigsins sleppir og hitt tekur við þjónustunni. Þessi aðgerð gagnast ekki hvað síst viðkvæmum hópum á borð við fólk með fötlun þótt gráu svæðin leynist vissulega víða.

Frú forseti. Sveitarfélögin standa frammi fyrir stórum áskorunum, ekki aðeins á Íslandi heldur út um allan hinn vestræna heim. Þau þurfa að bregðast við hækkandi meðalaldri þjóða, dvínandi trú á lýðræði og loftslagsvá, svo að nokkrar áskoranir séu nefndar. Í nýrri aðgerðaáætlun er brugðist við þessum áskorunum með einum eða öðrum hætti. Aðgerð til að bæta þjónustu við börn á aldrinum 0-6 ára stuðlar að því að bæta aðstæður barnafjölskyldna. Aðgerð um að meta betur menntun og reynslu innflytjenda í starfsliði sveitarfélaga um leið og stuðlað er að betri þjónustu við innflytjendur er að sama skapi til þess fallin að bæta aðstæður innflytjenda og ýta undir farsæla aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Hvort tveggja eru mikilvægir þættir til að stuðla að áframhaldandi velsæld og lýðfræðilegum stöðugleika þjóðarinnar.

Brugðist er við dvínandi lýðræðisþátttöku með því að stuðla að virkara íbúalýðræði, bæta aðstæður kjörinna fulltrúa og leiða fram kynjað mælaborð í jafnréttismálum. Með sama hætti er brugðist við loftslagsvánni með kortlagningu aðgerða sveitarfélaga í þágu umhverfis- og loftslagsmála, mótun tillagna um samhæfð vinnubrögð og frekari aðgerðir til að tryggja markvissari árangur í losun gróðurhúsalofttegunda.

Við megum heldur ekki gleyma því að tækifæri sveitarfélaganna eru mýmörg. Eitt af þeim felst í möguleikum þeirra til framfara með stafrænni umbreytingu. Heimsfaraldurinn hefur sannarlega orðið okkur áminning um þessa staðreynd og á sinn þátt í þeirri áherslubreytingu ríkisvaldsins að auglýsa öll störf óstaðbundið nema eðli starfanna krefjist annars. Von mín og trú er að þessi áherslubreyting verði lyftistöng fyrir landsbyggðirnar.

Síðast en ekki síst langar mig til að nefna mikilvægi þess að aðgerðaáætlunin felur í sér nánari skilgreiningu á viðmiði um sjálfbærni sveitarfélaga á sviði fjármála, samfélags og umhverfis í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna svo og á áskorunum hugtaksins búsetufrelsi. Ég lít svo á að hugtakið búsetufrelsi feli í sér eins konar gildi eða viðmið um markmið. Engu að síður hefur notkun hugtaksins kallað fram ýmsar vangaveltur meðal sveitarstjórna, einkum í sveitarfélögum með mikla sumarhúsabyggð, um skyldur sveitarfélagsins til þess að veita þjónustu til íbúa í þeim. Starfshópurinn mætir þessum vangaveltum með aðgerð um greiningu á áskorunum búsetufrelsis út frá gildandi lögum. Sérstaklega verður skoðað hvort ástæða sé til að breyta lögum um lögheimili og aðsetur.

Virðulegi forseti. Ný stefna og aðgerðaáætlun mun hafa margháttuð jákvæð áhrif á velsæld, framþróun og sjálfbærni sveitarfélaga. Stefnumótunin mun skila sér í betri lífsskilyrðum íbúa, markvissari rekstri sveitarfélaga og bættum rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Nú sem fyrr er brýnt að ríki og sveitarfélög snúi bökum saman um að leiða þessar grundvallarsamfélagsheildir með samhentum hætti inn í framtíðina.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þingsályktunartillögunnar og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.