154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:02]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég kem aðeins inn á búsetufrelsið fyrst þá er þetta að einhverju leyti gildishlaðið hugtak sem við höfum verið að vinna að sem meginmarkmið í ráðuneytinu og snýst um það að í raun og veru á hin opinbera þjónusta við atvinnulíf og allt það sem við erum að reyna að byggja upp í þessu landi að vera með þeim hætti að fólk geti búið þar sem það kýs innan þess lagaramma sem við erum með, þ.e. ekki í óleyfisbúsetu, ekki í atvinnuhúsnæði þar sem það er bannað eða sumarbústöðum þar sem þú færð ekki lögheimili. Þær áskoranir sem hafa komið upp vegna þess að menn hafa getað skráð sig óstaðsetta í hús er eitt af því sem hefur verið fjallað um í aðgerðaáætlun og að hugsanlega þurfi að skoða lögin um lögheimili og aðsetur.

Ég tel að vinnan sem fram fór þegar málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríki til sveitarfélaga hafi þá verið unnin af þeirra bestu manna yfirsýn eins vel og hægt var. Menn settu sér tveggja ára reynslutíma, ef ég man rétt, og töldu sig vera búna að gera þetta nokkuð vel, vegna þess að alltaf var verið að rífast um það að grunnskólafærslan hefði ekki verið gerð nægilega vel. Menn töldu sig held ég sannarlega hafa gert þetta. Því er alveg úrlausnarefni að velta fyrir sér hvers vegna kostnaðurinn hefur vaxið svona mikið. Þess vegna er eðlilegt að skoða það og alls ekki hægt að segja að ríkið hafi hlunnfarið sveitarfélögin í einhverjum aðgerðum hvað þetta varðar án þess að það sé skoðað, því að það þarf að skoða það miklu betur. Ég vænti þess að það verði skoðað og ég hef mikla trú á að það sé hægt.

Síðan eru ákveðin grá svæði og það er einn hluti aðgerðaáætlunarinnar að skoða öryggisvistun, börn með fjölþættan vanda og sérstakar húsnæðisbætur; allt hlutir sem eru að hluta til hjá sveitarfélaginu og að einhverju leyti hjá ríkinu en gæti verið betur fyrir komið á öðrum staðnum, þ.e. hjá ríkinu. Þá værum við að létta einhverjum hluta af kostnaðinum af sveitarfélögum (Forseti hringir.) og þyrftum þar af leiðandi kannski ekki að greiða fyrir það.