154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[16:09]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og fyrir að gefa sér tíma til þess að fara aðeins yfir þetta plagg sem að mínu mati er mjög mikilvægt og stórt fyrir sveitarfélögin í landinu, sérstaklega sveitarfélögin þótt þetta sé samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, því að ég held að þegar upp er staðið skipti það sveitarfélögin miklu meira máli hvernig þetta er gert heldur en ríkið. En það eru nokkrir punktar hérna og hv. þingmaður var að tala um samráð og spurði um hvernig samráði hefði verið háttað í þessari vinnu. Ég get bara upplýst það hér, virðulegur forseti, að samráð við vinnu þessarar þingsályktunartillögu var alveg gríðarlega mikið. Það var grænbók sem fór í samráð, það var hvítbók sem fór í samráð og síðan þessi þingsályktunartillaga sömuleiðis, fyrir utan fundi með sveitarfélögum og hagaðilum, bæði opna og lokaða. Þannig að samráðið var og hefur verið alveg gríðarlegt þennan tíma sem þessi tillaga hefur verið í mótun, þannig að ég held að öll þau sveitarfélög og allir þeir hagaðilar sem hafa viljað koma með einhverjar athugasemdir varðandi þessa þingsályktunartillögu hafi fengið mýmörg tækifæri til þess, bara svo að því sé haldið til haga.

Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og raforkumálin, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þessu og þekkingu, þá langar mig að velta fyrir mér einni spurningu sem snýr að tekjum sveitarfélaga sem eru með þessi mannvirki innan sinna sveitarfélagsmarka, hvað þingmanninum finnst um þá hugmynd að í raun og veru fari það í gegnum jöfnunarsjóðinn og sé deilt til allra sveitarfélaga landsins, ekki bara þeirra sem eru svo heppin að vera með ána eða línuna í gegnum sitt sveitarfélag. Á í raun og veru að deila því til allra í gegnum jöfnunarsjóðinn eða eiga bara þau sveitarfélög sem eru með mannvirkin innan sinna ramma að fá að njóta þess?