154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:41]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað þannig að í dag hafa einstök sveitarfélög sent slíkar kröfur inn á grundvelli þessara einkaréttarlegu samninga. Til samanburðar er verið að setja inn almenna heimild til þess að sveitarfélög hafi hana til að uppfylla óskir, kröfur, heilbrigða skynsemi um blandaða byggð. Sveitarfélögin hafa auðvitað skyldu til að gera húsnæðisáætlanir fyrir alla hópa í samfélaginu. Það eru sérstaklega tilteknir þessir hópar sem hér hafa verið nefndir. Í slíkri greiningu kemur væntanlega fram að það þurfi íbúðir fyrir þennan fjölda tiltekins hóps. Það hlýtur þá að vera sveitarfélaganna að meta það ef hópurinn er 20%, sem þau þurfa að gera, þá geta þau væntanlega krafist þess í deiliskipulagi. Þegar við erum að tala um heildarfermetrafjölda íbúða þá skiptir það líka máli til að búa til blandaða byggð að það sé ekki heildarfjöldi íbúða, vegna þess að í mörgum tilfellum eru þessar íbúðir jú minni. Ég held að þarna séum við einfaldlega að ná talsverðu takmarki um að búa til jákvæðan hvata fyrir sveitarfélögin, að geta sett fram með almennri heimild það að uppfylla sínar eigin húsnæðisáætlanir þannig að þau geti látið byggja yfir þann hóp íbúa sem á því þarf að halda.