154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Svona í gríni og alvöru ætti ég kannski að biðja vinkonu mína, hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur að lána mér ræðuna þannig að ég gæti flutt hana bara aftur vegna þess að ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður sagði hér og þær athugasemdir sem voru settar fram og gagnrýni á fyrirliggjandi frumvarp.

Það er hins vegar þannig að þetta frumvarp er í mínum huga ágætt dæmi um góðan ásetning. Ég þekki hæstv. heilbrigðisráðherra ekki af öðru en því að góður ásetningur ráði för í öllum hans gjörðum en góður ásetningur getur líka leitt okkur á villigötur, komið okkur í vandræði. Það er markmið þessa frumvarps að vinna gegn því að hér myndist skortur á nauðsynlegum lyfjum og ég hygg að það sé enginn hér á Íslandi sem leggst gegn markmiðum þessa frumvarps. Auðvitað viljum við með öllum tiltækum ráðum reyna að koma í veg fyrir að hér myndist skortur á lyfjum sem er ógn við almenna lýðheilsu.

Ég verð hins vegar að vara við því að menn gangi of langt í fyrirætlunum sínum eins og samherji minn Diljá Mist Einarsdóttir rakti áðan. Það að ætla sér að búa til gagnagrunn sem nái yfir 5.000 lyf, þar á meðal þau lyf sem framleidd eru hér á Íslandi og eru flutt út, ekki eingöngu til EES-landa heldur út fyrir EES-löndin og verða talin til birgða í samtímaupplýsingum í birgðahaldi, er í rauninni að mynda einhvers konar falskt öryggi. Það sem verra er, slík upplýsingaöflun mun að öllum líkindum valda því að samkeppnisstaða íslenskra lyfjaframleiðenda skerðist á hörðum alþjóðlegum markaði lyfja. Ég veit að það er ekki ætlun hæstv. heilbrigðisráðherra. Miklu fremur vill hann vinna að því að styrkja samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda í hörðum samkeppnisheimi lyfjaframleiðenda.

Við verðum líka að velta því fyrir okkur, af því að við erum, held ég, flest hér inni sannfærð um það að taka af fullum heilindum þátt í samstarfi EES, að við séum hins vegar ekki að ganga lengra en nauðsynlegt er. Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir talar hér um gullhúðun og því miður eru þess fjölmörg dæmi á undanförnum árum um að okkur hefur orðið á í messunni í þessum þingsal þegar kemur að innleiðingu reglugerða. En það er fátítt að við ákveðum að festa í íslensk lög reglugerð sem hefur ekki einu sinni verið innleidd í EES-samninginn, þannig að ég legg til — auðvitað á hv. velferðarnefnd eftir að taka til hendinni og fjalla um þetta mál efnislega. Það komu mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp þegar það var lagt fram á liðnu vori. Því miður hafa þær athugasemdir ekki ratað inn í frumvarpið sem er lagt hér fram að nýju en það hlýtur að koma til álita hjá hv. velferðarnefnd að leggja það til við ráðherra að hinkrað verði með þessa lagasetningu þangað til ljóst er með hvaða hætti og hvenær reglugerðin verður tekin upp í EES-samninginn.

Það er ekkert smámál að ætla sér að byggja upp gagnagrunn af því að — ég ætla bara að nota það orð og það er engin niðrandi merking fólgin í því — einhverja embættismenn langi til að vita allt um alla, í þessu tilfelli 5.000 lyf. Þegar Evrópusambandið ætlar að gera sér að góðu að vera með innan við 20 hefði ég þó haldið að það væri töluvert einfaldara mál fyrir okkur að fylgjast með birgðastöðu hér heldur en í 370 milljóna samfélagi Evrópusambandsins.

Ég ætla að ekki að lengja þessa umræðu frekar vegna þess að ég sit nú í velferðarnefnd sem fær málið og ég fæ þennan hausverk ásamt félögum mínum og samstarfsfólki í velferðarnefnd. Ég vil aðeins vitna í tvær umsagnir sem bárust nefndinni á síðasta þingi. Það er annars vegar frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni og hins vegar frá lyfjafyrirtækinu Veritas. Samtök iðnaðarins og Samtök fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni bentu á að „til þess að markmiði reglugerðarinnar verði náð er fyrst og fremst nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld búi svo í haginn að starfsumhverfi lyfja- og lækningatækjaframleiðenda sé með besta móti hér og að íþyngjandi regluverk hindri ekki nýsköpun og framleiðslu í iðnaðinum.“ Það getur enginn haldið því fram að þetta frumvarp sem hér liggur fyrir valdi ekki framleiðendum og lyfjafyrirtækjum hér á Íslandi vandræðum og sé íþyngjandi, dragi úr samkeppnishæfni þeirra.

Að lokum, með leyfi frú forseta, ætla ég að lesa beint upp úr umsögn Veritas:

„Víðtækar heimildir stjórnvalda til að fylgjast með birgðastöðu einkaaðila munu ekki leysa það vandamál sem frumvarpinu er ætlað að leysa. Lyfjaskortur er alþjóðlegt vandamál. Það vekur furðu að íslensk stjórnvöld séu tilbúin að leggja í gífurlegan kostnað við uppsetningu á gagnagrunni án þess að spyrja gagnrýninna spurninga eða kynna sér hvernig innleiðing reglugerðar Evrópusambandsins er háttað í nágrannalöndunum. Það skortir á allan rökstuðning og útfærslu á því hvernig gagnagrunnurinn og aukið eftirlit á að leysa vandann vegna lyfjaskorts og töluverð hætta á að stjórnvöld séu að leggja í kostnaðarsamar aðgerðir með von um útkomu og lausnir sem er með öllu óljóst að verði.“