154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[19:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Bein markaðssetning er bönnuð en við vitum hins vegar að það er farið inn á ný svæði og það hefur verið gert í gegnum tíðina þó að það sé ekki gert með þeim auglýsingum sem eru bannaðar. Ég sjálf var einmitt unglingur þar sem ýmsar greinar — og öllum var bent á það að það væri ekki nærri eins hættulegt að neyta sígarettna með mentólbragði. Þegar við erum að tala um neysluna í hópi kvenna á mínum aldri þá eimir enn þá eftir af þessari markaðssetningu sem beint að þessum hópi sem ungmennum, sem var hugsanlega óbein.

Seinna andsvarinu langar mig að beina að aðlögunartímanum og hlutfallinu. Í fyrsta lagi hefur legið ljóst fyrir að þetta bragðbann væri á leiðinni í Evrópu og ég leyfi mér að efast um að sígarettur séu framleiddar eingöngu fyrir Íslandsmarkað. Það er framleitt fyrir stærri markað þótt merkingarnar séu svo sérstaklega settar á pakkana hér og því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort markaðsaðilum ætti ekki að vera fullkunnugt um að þetta bann væri yfirvofandi.

Í öðru lagi þegar talað er um hlutfall, og það hefur ítrekað verið gert í umræðunni, að hlutfallið sé hærra hér, en víða í Evrópu er miklu stærra hlutfall af íbúum hvers lands sem reykir, þannig að hlutfall af þeim tóbaksneytendum á Íslandi er hugsanlega miklu lægra hlutfall af heildarmannfjölda en lægra hlutfall í Evrópu. Getur þingmaðurinn verið sammála mér um það?