154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[19:08]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir er breyting á lögum um tóbaksvarnir og þar eru, eins og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir kom inn á, þó nokkrir vankantar. Þar er til að mynda ekki skýr umfjöllun um hvað teljist vera bragðefni og hvar línan er dregin. Ég velti fyrir mér hvort við, fyrst við erum að þessu, eigum ekki bara að banna þetta allt saman. Eins og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir kom inn á er um að ræða innleiðingu á Evrópulöggjöf en mér sýnist hæstv. heilbrigðisráðherra vera að ganga lengra með innleiðingu þessarar tilskipunar en Evrópusambandið gerir kröfu um hvað varðar bannákvæðin þar og framfylgd banna.

Hérna er bara mjög beisik spurning: Hvernig verður þetta ef neytandi kaupir kassa af tóbaksvörum sem innihalda bragðefni á flugvelli erlendis og kemur með hann til landsins? Ég velti fyrir mér hvort tollgæslan muni stöðva menn vegna þess að þeir séu að flytja inn ólöglegan varning sem eru mentólsígarettur og jarðarberjasígarettur. Svo velti ég því líka fyrir mér, virðulegi forseti, hvort að með gildistöku þessara laga sé hætta á að komið verði á fót hallærislegasta svartamarkaði sem til hefur verið þar sem Capri er selt með ólöglegum hætti.

Í frumvarpinu er líka kveðið á um bann við fjarsölu á tóbaksvörum til neytenda yfir landamæri. Ég tel það ákvæði ekki beint vera til bóta enda er ekkert fjallað um í frumvarpinu hvernig þessu banni verði beitt í framkvæmd og hvernig eftirlitinu með því yrði háttað. Það er einn af vanköntunum sem ég talaði um í byrjun. Mér skilst að tilskipunin veiti heimild en ekki skyldu hvað varðar þetta bann yfir landamæri og þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna hæstv. ráðherra sé að grípa til bannaðgerða sem hafa áhrif á markaðsstarfsemi og framboð á samkeppnismarkaði og líka neytendur þessara vara sem eru, eins og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir kom inn á, bara mjög rólegur hópur. Ég tel það ekki vera til bóta að vera að rugga bátnum eitthvað þar af því að það er ekkert verið að tala um forvarnir í þessu frumvarpi. Ég velti því fyrir mér af hverju það er ekki verið að huga að aðgerðum og forvörnum sem stuðla að því að fólk hefji ekki notkun á þessum vörum, neyslu á þessum vörum til að byrja með. Það er í rauninni miklu auðveldara að bregðast við því sem hefur ekki enn gerst heldur en að bregðast við afleiðingum forvarnaleysis og fræðsluleysis. Ég tel skiljanlegt að sjálfsögðu og ég tel eiginlega bara sjálfsagt að eftirlit verði aukið með þeim tóbaksvörum sem seldar eru á smásölumarkaði hérlendis en ég tel að það sé líka nauðsynlegt að stuðlað verði að meiri fræðslu og forvörnum hvað varðar neyslu ungs fólks á þessum vörum til að byrja með.

Fyrst ég er að tala um ungt fólk þá langar mig líka að koma inn á það að ég hef ekki séð mikla eftirspurn meðal ungs fólks á bragðbættum sígarettum, en þó svo væri þá yrði fræðsluátak mun vænlegra til vinnings en bann. Sagan hefur sýnt að boð og bönn skila ekki árangri og mér þykir það eiginlega ótrúlegt að þessi ríkisstjórn, sem kennir sig við frjálslyndi og frelsi, sé að ganga svo langt að banna neysluvöru tiltekins hóps sem er bara rosalega saklaus án þess að huga að fræðslu og forvörnum í leiðinni. Ég hef aldrei séð fyrirpartí fyrir menntaskólaball þar sem fólk er að skiptast á bragðbættum sígarettum. Sígarettur eru ekki beint „in“ meðal unga fólksins í dag, höfum það bara alveg á hreinu. Ásamt þessu banni hefði ég viljað sjá ákvæði um eftirfylgni með áhrifum bannsins og hvort fólk sé að leita í aðrar tóbaksvörur og hvort neysla ungs fólks á tóbaks- og nikótínvörum hafi minnkað eftir að sígarettur með bragðefnum voru bannaðar á Íslandi. Það er mikilvægt að huga að því hvað sé að leiða fólk út í neyslu á þessum vörum og huga að leiðum til að bregðast við því áður en það leitar í þessa neyslu til að byrja með. En eins og ég segi, boð og bönn skila ekki árangri.

Hvað varðar innleiðingu á Evróputilskipun vil ég að það komi fram að ég er mjög mikill Evrópusinni, mjög mikill EES-sinni og tel EES-samninginn veita okkur aðhald hvað varðar nauðsynlega löggjöf. En ég dreg þó línuna þegar við göngum lengra við innleiðingu tilskipunar með lagasetningu en Evrópusambandið gerir kröfu um. Þessi ríkisstjórn er til að mynda ekkert að flýta sér að innleiða reglugerðir og tilskipanir sem kveða á um orkunýtingu, orkusparnað, uppfærslu ETS-kerfisins og allt sem varðar t.d. gagnsæi á fjármálagerningamarkaði, bara svo dæmi sé nefnt. Þvert á móti fengu þau rassskellingu frá EFTA-dómstólnum í fyrra vegna tafa á 27 gerðum sem við hefðum átt að innleiða fyrir löngu. Þess vegna velti ég fyrir mér: Hvers vegna er þessi æsingur við að leggja fram þetta frumvarp og innleiða nákvæmlega þessa tilskipun sem hefur alveg mætt þó nokkru mótlæti hér inn á þingi? Hvers vegna er verið að ganga lengra varðandi gildistöku bannákvæða en nauðsyn krefur? Ég tel það ekki vera til bóta.

Virðulegi forseti. Burt séð frá því að það er enn til staðar vafamál hvað varðar útfærslu ákvæða sem frumvarp þetta kveður á um er þetta fullmikil forræðishyggja fyrir minn smekk.