154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[11:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir að hafa komið með rökin fyrir því að þetta fari í atvinnuveganefnd þó að ég hafi orðið fyrir talsverðum vonbrigðum, ég hélt að þau væru meiri en þetta. Það er bannað að veiða margar tegundir dýra. Er það bersýnilegt brot á stjórnarskrá að mati hv. þingmanns? Nei, það er það ekki vegna þess að aðrir hagsmunir eru taldir vega þyngra. Þetta á við um fjölmargar atvinnugreinar, það er heilmargt sem er bannað á Íslandi. Atvinnufrelsi er ekki ótakmarkað, það sætir ákveðnum takmörkunum og er sannarlega mat í hverju tilviki fyrir sig. Rökin fyrir banni við hvalveiðum snúast um almannahagsmuni, snúast annars vegar um breytingar á siðferði okkar, snúast um umhverfismál, loftslagsmál og fleira.