154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er með nokkrar spurningar varðandi þetta frumvarp. Í fyrsta lagi langaði mig að spyrja: Hvernig stendur á því að fulltrúar eins og Geðhjálp séu ekki hluti af þeim hagsmunaaðilum sem eiga að hafa sæti í ráðgjafarnefndinni sem tilgreind er í 6. gr.? Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að fólk með geðsjúkdóma hefur í raun sætt töluvert miklum brotum á mannréttindum í gegnum tíðina hérna á Íslandi. Það er enn þá þannig að það er ekki heimild í lögum fyrir mörgum af þeim þvingunaraðgerðum sem þessi hópur er beittur inni á geðheilbrigðisstofnunum á Íslandi. Hvers vegna eru ekki fulltrúar frá þessum stóra og mikilvæga hópi þegar kemur að mannréttindavernd inni í þessum ráðgjafarhópi?

Síðan vildi ég líka spyrja, vegna þess að persónulegir talsmenn eru einhvern veginn settir inn í þessi lög líka að hluta: Er einhver vinna í undirbúningi til að persónulegir talsmenn fatlaðs fólks fái fljótlega að fara að fá greitt fyrir vinnu sína?